Föstudagsmolar forstjóra 26. nóvember 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Vel heppnaður Vísindadagur
Síðasta föstudag fór fram Vísindadagur Reykjalundar í 18. skiptið. Því miður þurfti dagskráin að fara fram í netheimum þetta árið en við því var lítið að gera.
Dagurinn tókst mjög vel og voru erindin hvert öðru áhugaverðara. Dagskráin var sannarlega glæsileg og mjög áhugavert að fylgjast með því flotta vísindastarfi sem fram fer hér á Reykjalundi.
Ég vil koma á framfæri bestu þökkum til Mörtu rannsóknastjóra og Vísindaráðsins okkar, þeirra Aðalbjargar, Ingu Hrefnu og Örnu Elísabetar.
Kærar þakkir fyrir kalkúninn!
Í gær hljóp heldur betur á snærið hjá matgæðingum hér á Reykjalundi þegar boðið var upp á kalkúnaveislu í hádeginu. Gunnar og félagar í eldhúsinu buðu þá starfsfólki og gestum okkar upp á ljúffengan kalkún en á innra netinu okkar sá ég að viðburðurinn var kallaður ”Kalkúnaveisla káta kokksins og kvennanna í eldhúsinu”. Ég veit að flestir nutu vel og er sjálfsagt að þakka þeim Gunnari, Valborgu, Nínu, Guðbjörgu, Margréti Þóru og Áslaugu Sunnu í eldhúsinu og matsalnum kærlega fyrir framtakið.
Það er ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið til að leggja aukalega á sig til að skapa tilbreytingu svo enn og aftur kærar þakkir fyrir okkur.
Á myndinni með föstudagsmolunum í dag eru einmitt iðjuþjálfarnir Henrietta Fríða Árnadóttir og Edda Björk Skúladóttir, glaðbeittar með kalkúninn.
Tölvuhremmingar
Í vikunni lentum við heldur betur í hremmingum í tölvulandi. Úr netfangi ónefnds starfsmanns fóru að berast veirusmitaðir tölvupóstar á ýmsa hópa og loks alla starfsmenn. Þessir póstar voru nokkuð sannfærandi og lentu einhverjir starfmenn í að opna viðhengi sem fylgdi, sem getur dreift veirunni enn frekar. Starfsfólk Advania aðstoðaði okkur við lausn málsins og á þetta mál nú að vera úr sögunni. Ef svo ólíklega vill til að einhver hefur slysast til að opna viðhengin og ekki látið Advania vita, er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að gera það hið snarasta.
Eins og kynnt var í sérstökum tölvupósti í gær mun Reykjalundur starfa á appelsínugulu viðbúnaðarstigi fram að jólum. Er þessi ákvörðun tekin í ljósi þess að COVID smit hér á landi eru í sögulegu hámarki þessa dagana. Vegna þess mun starfsemin í desember verða óhefðbundin. Því miður fellur niður jólaball fyrir okkur, börn og barnabörn sem fyrirhugað var 13. desember. Jólafundur Reykjalundar sem fyrirhugaður var í hádeginu 15. desember mun ekki fara fram með hefðbundnum hætti, heldur í fjarfundi en boð Reykjalundar til starfsfólks um jólamat í hádeginu fimmtudaginn 9. desember, mun standa. Starfsmannafélagið okkar mun svo krydda tilveruna með einhverjum spennandi uppátækjum í desember.
Að lokum vil ég óska sjúkraliðum til hamingju með daginn en í dag er Evrópudagur sjúkraliða.
Jafnframt vil ég senda góðar kveðjur yfir á Hlein en þar á bæ var fólk að losna úr sóttkví sem þau hafa verið í síðustu daga.
Góða helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur