19.11.2021

Föstudagsmolar forstjóra 19. nóvember 2021 - gestahöfundur er Olga Björk Guðmundsdóttir

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem eru fín hugvekja fyrir okkur öll. Gestahöfundur í dag er Olga Björk Guðmundsdóttir, formaður Efnaskipta- og offituteymis og hjúkrunarstjóri á efnaskipta og offitusviði og starfsendurhæfingu Reykjalundar.

Eins og kynnt var fyrr í morgun, mun Reykjalundur starfa á Appelsínugulu viðbúnaðarstigi frá og með mánudeginum 22. nóvember, amk fram til föstudagsins 3. desember. Þetta hefur í raun lítil áhrif á sjúklingana okkar. Munurinn á rauðu og appelsínugulu viðbúnaðarstigi felur aðallega í sér meira frjálsræði í störfum okkar, þó svo að starfsemin sé áfram í skilgreindum sóttvarnarhólfum. Með þessu erum við ekki að stöðva meðferðarstarf eins og gerist á rauðu viðbúnaðarstigi, heldur aðlaga það að umhverfinu með mjög varfærnum hætti.

Að lokum minni ég svo á Vísindadag Reykjalundar í dag!

Góða helgi!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 19. nóvember 2021 - Það styttir alltaf upp og lygnir

Kæra samstarfsfólk, nú er blessaður veturinn skollinn á með sínum hefðbundna lægðagangi og vindum, en líka töfrandi og stjörnubjörtum stilltum kvöldum. Ég er svo þakklát fyrir að búa á Íslandi og nýt þess að upplifa árstíðaskiptin sem birtast í hinum ýmsu litum náttúrunnar.

Það er kósýkvöld í kvöld, rólegheit hvað sem það kostar segir í  lagi Baggalúts, sem gefur tóninn fyrir kertaljós og tilheyrandi stemningu. Það var einmitt á slíku kvöldi sem ég fór í nostalgíu gírinn og fann þetta gamla Reykjalundar frímerki frá árinu 1949, en þá var aðalbygging Reykjalundar tekin í notkun. Ég kom hingað til starfa fyrir þó nokkrum árum til að leysa Þuríði hans Heimis heilsuþjálfara af í fæðingarorlofi og er hér enn.  Hef upplifað og tekið þátt í mikilli  þróun  í endurhæfingunni ásamt því að eignast dýrmætar minningar sem gott er að ylja sér við á dimmum vetrarkvöldum.

Minningar frá þeim árum þegar hér voru sólarhringsdeildir, kvöldvökur einu sinni í viku í samkomusalnum með tilheyrandi undirbúningi, rúllur settar í hár og herramennirnir rakaðir. Á aðfangadegi jóla var þar messa og hátíðleg stemning.

Mínar bestu minningar tengjast veru minni í Reykjalundarkórnum sem söng reglulega fyrir sjúklinga og fleiri við hátíðleg tækifæri. Í honum voru líka Maggi B og Dagný á hjartanu, Þóra á verkjunum og Aldís á lungunum.  Það var svo gaman að eiga stundir með samstarfsfólkinu í gleði og söng. Svo má ekki gleyma minningum sem tengjast mat, sviðasultan og brauðsúpan með rjóma hjá Geira kokki og ferðunum í sjoppuna sem nú er Grímannsfell, til að kaupa nýtt krembrauð hjá henni Auði.

Úr nostalgíu gírnum og sjóði minninganna í nútímann. Síðustu mánuðir og ár hafa verið sannkölluð óvissuferð með hinum ýmsu áskorunum vegna Covid ástandsins.  Við höfum sýnt einstaka aðlögunarhæfni og seiglu á þessum óútreiknanlegu tímum, en öllu eru nú takmörk sett og við farin að þrá frelsið og samverustundir án takmarkana.

Það hvessir, það rignir, en það styttir alltaf upp og lygnir raulaði ég á leiðinni í vinnuna einn morguninn. Í þessu lagi sem minn kæri Raggi Bjarna söng, birtist jákvæðni og von sem við þurfum svo sannarlega á að halda þessa dagana. Jákvæða sálfræðin kenndi mér að með því að beina huganum  að því sem jákvætt er í tilveru okkar getum við aukið vægi jákvæðra tilfinninga , líkt og blóm sem teygir sig í átt að sólarljósi.  Svo eru jákvæðar tilfinningar líka bráðsmitandi og geta opnað hin ýmsu hólf góðra hugmynda og lausna.

Gróskuhugarfar er líka gott verkfæri í þessum hafsjó áskorana og hjálpar okkur við að þroskast við hverja raun og til að komast í gegnum þetta saman. Það eykur samkennd í garð hvors annars.

Við megum ekki faðma hvort annað núna, en að faðma sjálfan sig er einföld og góð leið til að sýna sér góðvild og hlýju. Eigum það svo sannarlega skilið.

Framundan er tími tilhlökkunar, 35 dagar til jóla.  Til að komast í jólagírinn mæli ég með að hlusta á lag Baggalúts “´Kósýheit Par Exelans og fylla hugann af tilhlökkun og gleði.

Kósíheit Par Exelans - Baggalútur (m/texta) - YouTube

Njótið vel og bestu óskir um góðar stundir og líðan 😊

Olga Björk Guðmundsdóttir,

Formaður Efnaskipta- og offituteymis og hjúkrunarstjóri á efnaskipta og offitusviði og starfsendurhæfingu Reykjalundar.

Til baka