05.11.2021

Föstudagsmolar forstjóra 5. nóvember 2021 - gestahöfundur er Ingibjörg Bjarnadóttir

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem fjalla um venjur og eru holl lesning fyrir okkur öll. Gestahöfundur í dag er Ingibjörg Bjarnadóttir iðjuþjálfi og formaður lungnateymis.

Eins og kynnt var í gær, mun Reykjalundur starfa á Rauðu viðbúnaðarstigi frá og með deginum í dag, amk fram til föstudagsins 12. nóvember. Þetta hefur í raun lítil áhrif á sjúklingana okkar en setur okkur starfsfólki aftur þær skorður að við byrjum að starfa innan sóttvarnarhólfa, matartímar okkar breytast og fundir færast yfir í fjarfundi og fleira.

Um hádegið verður svo sendur út sérstakur upplýsingapóstur um málið.

Góða helgi!

Bestu kveðjur

Pétur

 

Föstudagsmolar 5. nóvember 2021.

Ég hugsa að allir hafi gagn af því að líta inn á við og skoða daglegar venjur, bæði í vinnu og einkalífi. Hraði er eitt af því sem einkennir nútíma samfélag þar sem mörgum hættir til að hlaða á sig verkefnum þannig að það verður minni og minni tími fyrir gæðastundir og að njóta þess sem verið er að gera hverju sinni.

Venjur okkar hafa mikil áhrif á jafnvægið í lífinu og við erum í eðli okkar mjög vanafastar verur. Vani stýrir því hvernig við skipuleggjum og framkvæmum dagleg verk. Sum verk eru okkur svo töm að við getum gert ýmislegt annað á meðan, t.d. talað við aðra eða hugsað um annað sem tengist verkinu ekki. Við skipuleggjum vinnu, sinnum heimilisstörfum, hreyfingu og áhugamálum yfirleitt á sama hátt en erum ekki meðvituð um það þar sem þetta er orðið ósjálfrátt ferli. Venjum er hægt að breyta en fyrst þarf maður að gera sér grein fyrir þeim og hvort þær eru góðar/styðjandi eða slæmar/hamlandi. Það sem þarf m.a. til að breyta venju er vilji og að taka meðvitaða ákvörðun um að framkvæma á annan hátt. Það er aldrei of seint að brjóta upp slæma venju og skapa nýja í staðin.

Til að átta sig betur á þessu er gott að fara í gegnum daginn/vikuna og skoða hvað kemur upp. Er eitthvað í rútínunni þinni sem er að vinna gegn þér eða ertu sátt/sáttur?  

Inn á TherapistAid má finna 8 ráð til að búa til og viðhalda nýrri venju: 

Gerðu greinamun á markmiðum og venjum. Markmið eru útkoma eins og að „efla heilsuna‘‘. Venjur eru skrefin sem þú tekur til að ná markmiði, t.d. að borða grænmeti með hverri máltíð. 

Gerðu breytingar í litlum skrefum. Gerðu stigvaxandi breytingar í átt að þeirri venju sem þú vilt tileinka þér og byggðu síðan ofan á það. Jafnvel þó þú bætir þig aðeins um 1% í hverri viku, þá eru breytingarnar sem eiga sér stað á mánuðum eða árum miklar.

Gerðu breytingar á umhverfi þínu. Gerðu breytingar sem ýta undir nýja venju og dregur úr slæmum venjum. Ef þú vilt t.d.  borða hollara fæði getur þú haft skál með ávöxtum á borðinu og fjarlægt óhollt millimál úr augsýn.

Binda nýja venju við aðra athöfn (sem er góð og í rútínu). Gerðu plan með því að nota eftirfarandi: Eftir ____ mun ég ___. Eftir hverja máltíð mun ég lesa í 5 mínútur. Þetta er einföld leið til að muna eftir nýrri venju á hverjum degi og hvetja til stöðugleika.  

Einhver ástundun er betri en enginn. Þó að þú hafir ekki nægan tíma eða orku, skaltu gera eitthvað til að byggja upp nýja venju. Of þreytt/ur til að fara í langan göngutúr? Farðu út að ganga í 5 mínútur. Of upptekin til að lesa heilan kafla? Lestu eina blaðsíðu. Staðfesta byggir upp nýjar venjur.

Segðu einhverjum frá því að þú ætlir að tileinka þér nýja venju. Það ýtir undir ábyrgð og gerir þér erfiðar fyrir að bakka út úr skuldbindingunni og getur stuðlað að hvatningu.

Skráðu ferlið. Haltu dagbók, gerðu dagtal eða töflu til að halda utan um ferlið þegar þú ert að tileinka þér nýja venju. Það getur verið ánægjulegt að skrá ferlið og horfa síðan til baka og sjá alla þá miklu vinnu sem þú hefur lagt í að skapa nýja venju.

Fagnaðu árangri þínum. Heilbrigðar venjur stuðla að langtímaávinningi sem tekur tíma að festa í sessi. Í þessu ferli er gott að veita sér smá umbun til að viðhalda hvatningu.

Lífið er smá saman að færast í fyrra horf eftir takmarkanir út af dálitlu, vinnuvikan er styttri hjá mörgum og minni tími til að sinna sömu verkefnum og síðan er jólahátíðin framundan sem er annatími hjá mörgum fjölskyldum. Hvet því alla til að líta inn á við og skoða daglegar venjur!

Ingibjörg Bjarnadóttir

Iðjuþjálfi og formaður lungnateymis

Til baka