Föstudagsmolar forstjóra 22. október 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem eru ágætis vangaveltur inn í helgina en gestahöfundur í dag er Anný Lára Emilsdóttir, forstöðumaður á Hlein.
Um hádegið verður svo sendur út sérstakur upplýsingapóstur varðandi hvað það þýðir að Reykjalundur fari af appelsínugulu viðbúnaðarstigi yfir á gult stig, frá og með næsta mánudegi, 25. október.
Góða helgi!
Bestu kveðjur
Pétur
Er tímabært að grisja í þínu lífi?
„Ef allir væru eins og þú væri engin þörf fyrir fornleifafræðinga“ sagði mamma mín eitt sinn við mig. Það er mikið til í því þar sem ég hef um langt skeið einsett mér að eiga sem minnst af hlutum og losa mig reglulega við það sem ekki nýtist mér hverju sinni. Ég þekki ekki eitt gott íslenskt orð yfir það sem á ensku kallast to declutter en í því felst að grisja í sínu nærumhverfi og greiða úr óreiðu. Markmiðið er að bæta lífsgæðin, einfalda líf sitt og auka hamingjuna. Til eru ótalmargar bækur og myndefni um slíka grisjun og skipulagningu en mitt leiðarljós í þessum efnum er bók sem heitir Clear Your Clutter with Feng Shui: Free Yourself from Physical, Mental, Emotional, and Spiritural Clutter Forever. Hún er skrifuð af Karen Kingston og var fyrst gefin út árið 1998.
Meginnálgun höfundarins er að allt rými gefi frá sér orku og ákveðnir hlutir eða óreiða trufli orkuflæði rýmisins. Það gerir það meðal annars að verkum að þú þreytist auðveldlega, dvelur meira í fortíðinni, það er erfiðara að halda rýminu snyrtilegu og kostar pening.
Að mati Kingston er fernt sem flokkast sem drasl/óreiða: 1) hlutir sem þú hvorki notar né elskar 2) hlutir sem eru ósnyrtilegir eða í óreiðu 3) of margir hlutir á of litlu svæði 4) það sem er óklárað.
En hvers vegna erum við með svona mikið dót í okkar nánasta umhverfi? Fyrir því eru ýmsar ástæður sem fjallað er um í bókinni og má t.d. nefna rökin
- þessi hlutur gæti nú nýst mér seinna meir (kannast einhver við að eiga a.m.k. fjórar ausur í áhaldaskúffunni?)
- þessi hlutur er partur af því sem ég er (áttu gatslitinn menntaskólabol aftast í fataskápnum sem þú færð þig ekki til að losa þig við?)
- við systkinin vorum bara alin upp við að vera nýtin (en sannleikurinn er sá að þú munt aldrei rétta við ryðgaðan nagla og nota hann aftur þótt pabbi þinn hafi gert það).
Kingston kennir lesandanum að leggja fyrir Draslprófið með því að biðja hann að spyrja sjálfan sig þessara þriggja spurninga: 1) Léttir það lundina mína þegar ég hugsa um eða horfi á hlutinn? 2) Finnst mér þessi hlutur alveg frábær eða bara “lala“? og 3) Hefur hluturinn raunverulegt notagildi?. Þess ber reyndar að geta að í bókinni er ekki bara tekið á því hvernig við getum losað okkur við óþarfa veraldlega hluti heldur er einnig fjallað um hvernig hægt sé að taka á tilfinningalegri óreiðu og samferðafólki sem dregur mann niður.
Ég hvet þig lesandi góður til að íhuga hvort eitthvað af dótinu í kringum þig megi ekki missa sín. Það þarf ekkert að fara alla leið í þessum efnum, bara byrja smátt og gera þetta á hraða sem hentar hverjum og einum. Ef þú finnur fyrir trega í hjarta þegar þú losar þig við stöku sokkana í sokkaskúffunni, og telur sjálfum/sjálfri þér trú um að kannski finnist hinn sokkurinn á endanum, þá veistu alla vega núna af því að fræðingar úti í hinum stóra heimi hafa skrifað heilu bækurnar til að hjálpa þér í gegnum ferlið!
Anný Lára Emilsdóttir,
forstöðumaður á Hlein