15.10.2021

Föstudagsmolar forstjóra 15. október 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Bleikur dagur í dag - stuðningur og samstaða með konum sem greinst hafa með krabbamein!

Bleiki dagurinn er átak á vegum Krabbameinsfélagsins þar sem félagið hvetur landsmenn til að bera bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Við hér á Reykjalundi tökum heilshugar þátt í Bleika deginum sem er í dag, 15. október, rétt eins svo mörg önnur fyrirtæki og stofnanir. Fjöldi starfsmanna hefur í dag klæðst einhverju bleiku. Það er alltaf gaman að gera sér örlítinn dagamun og líta upp úr hefðbundinni vinnu, ekki síst í þessu blessaða Covid ástandi sem er farið að reyna verulega á okkur öll. Þess vegna hafa allar deildir og einingar fengið afhentar bleikar bollakökur í dag frá eldhúsinu. Mynd dagsins var einmitt tekin í eldhúsinu okkar í morgun þegar Guðbjörg, Sandra og Halldóra á skrifstofunni, Gunnar kokkur og hinir snillingarnir í eldhúsinu, voru að undirbúa afhendingu á kökunum.  Vonandi njótið þið öll vel og eigið góðan bleikan dag. Þó það sé gaman og mikilvægt að gleðjast er jú aðalatriðið að sýna stuðning með þeim konum sem greinst hafa með krabbamein. Við munum svo birta nokkrar myndir frá bleika deginum á innri-síðu og  facebook-síðunni eftir helgi.

Starfsendurhæfing í skoðun

Gaman er að segja frá því að um þessar mundir er í gangi spennandi og skemmtilegt verkefni hjá okkur sem er endurskoðun á starfsemi og skipulagi starfsendurhæfingarteymis.  Vinnan var sett í gang í kjölfar vinnudag teymisins í sumar þar sem niðurstaðan var að  tímabært væri að endurskoða verkferla innan teymis og æskilegt væri að auka samstarf bæði við önnur teymi innan Reykjalundar og ýmsa ytri aðila.

Vinnuhópur var settur í gang til að leiða þessa endurskoðun. Hópinn skipa, Hans Jakob Beck yfirlæknir og Maren Ósk Sveinbjörsdóttir iðjuþjálfi og formaður starfsendurhæfingarteymisins auk Stefáns, framkvæmdastjóra lækninga og Óskars, framkvæmdastjóra þjálfunar og ráðgjafar. Hópurinn hefur rætt ólíkar nálganir á málin og kallað til sín ýmsa aðila til álitsgjafar. Í síðustu viku fór til dæmis starfsendurhæfingarteymið okkar í mjög áhugaverða svót-greiningu á starfi sínu þar sem skoðaðir eru kostir og gallar, tækifæri og ógnanir.

Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með þegar hópurinn skilar tillögum sínum, sem ráðgert er að verði í næsta mánuði.

Fræðsla fer í gang – byrjum á persónuverndarmálum

Það þarf ekki að orðlengja enn einu sinni að Covid hafi haft ýmis áhrif á daglegt líf hér á Reykjalundi. Eitt að því sem legið hefur niðri er almennt fræðslustarf. Við flest hér á Reykjalundi gerum okkur grein fyrir mikilvægi fræðslu og símenntunar og því hefur verið lögð áhersla á að koma þeim málum í öflugan farveg. Á miðvikudag hefur framkvæmdastjórn boðað til sín fulltrúa úr Fróðleysuhópnum til að ræða fræðslu vetrarins og finna henni farsælan farveg. Við ætlum ekki að bíða mjög lengi heldur hefur þegar verið ákveðið að fyrsti fræðslufundur vetrarins verði í hádeginu, miðvikudaginn 27. október þegar Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi Reykjalundar, sem og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, ætlar að ræða og fræða um persónuvernd í okkar daglega starfi. Gunnhildur er einn reyndasti persónuverndarfulltrúi landsins og hefur tekist vel til, við að koma þessu forvitnilega efni til skila með áhugaverðum hætti.

Fyrirlesturinn verður auglýstur formlega á næstunni og vil ég hvetja ykkur sem allra flest til að hlusta enda skipa persónuverndamál sífellt stærri sess í daglegu starfi okkar og ná yfir miklu fleiri þætti en flesta grunar.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka