Föstudagsmolar forstjóra 8. október 2021 - gestahöfundur er Magdalena Ásgeirsdóttir yfirlæknir á Miðgarði og Hlein
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem eru ágætis hugleiðingar um endurhæfingu, en gestahöfundur í dag er Magdalena Ásgeirsdóttir, yfirlæknir á Miðgarði og Hlein.
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur
Pétur
HUGLEIÐINGAR UM ENDURHÆFINGU
Í desember 2020 birtist í læknatímaritinu The Lancet grein sem sýnir bæði svæðisbundið og á heimsvísu fjölda fólks sem þarf á endurhæfingu að halda. Þessi grein er unnin uppúr skýrslum og gögnum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME). Það er mat höfunda að þriðjungur mannkyns glími við heilsufarsvanda á lífsleiðinni sem endurhæfing getur bætt. Þörf fyrir endurhæfingu hefur aukist um 63% frá því 1990 og nú er talið að tæplega tveir og hálfur milljarður fólks þurfi á endurhæfingu að halda. Þetta mat staðfestir nauðsyn þess að fjölga endurhæfingarúrræðum á öllum stigum heilbrigðiskerfisins. Sífellt fleiri lifa af alvarleg slys og sjúkdóma en ná aldrei upp fyrri færni og búa því við ævilanga færniskerðingu. Endurhæfingin verður sífellt flóknari og viðfangsefnin eru fjölbreytt og kalla á sérhæfða og einstaklingsmiðaða endurhæfingu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett fram skilgreiningu á endurhæfingu en engin skilgreining er til í íslenskum lögum. Í apríl 2020 kom út skýrsla á vegum Heilbrigðisráðuneytisins og þar er þessi tillaga að skilgreiningu á endurhæfingu sett fram.
Endurhæfing er samstarfsverkefni einstaklings, fagfólks og aðstandenda með skýrum markmiðum og tímamörkum. Hún miðar að því að hámarka líkamlega, andlega og félagslega færni einstaklings sem býr við eða er hætt við færniskerðingu í aðstæðum sínum og umhverfi. Með endurhæfingu aukist sjálfstæði og möguleikar til að lifa því lífi sem hefur tilgang og merkingu fyrir viðkomandi. Endurhæfing tekur mið af stöðu og aðstæðum einstaklingsins og krefst samfellu og samræmdra aðgerða sem byggja á bestu þekkingu
Læknisfræðileg endurhæfing eins og sú sem veitt er á Reykjalundi er þverfagleg og að henni koma margar heilbrigðisstéttir og annað sérhæft starfsfólk. Skilgreiningin hér að ofan er lýsandi fyrir starfsemi Reykjalundar þar sem teymi fagfólks kemur að hverjum skjólstæðingi.
Reykjalundur hefur um langt skeið verið kennslustofnun fyrir heilbrigðisstéttir bæði í grunnnámi og einnig í framhaldsnámi í endurhæfingarfræðum og skyldum greinum.
Fyrr á þessu ári hlaut Grensás endurhæfingardeild Landspítala og Reykjalundur viðurkenningu Embættis landlæknis og Heilbrigðisráðuneytis sem kennslustofnun fyrir sérnám í læknisfræði, það er upphafs- og kjarnanám í endurhæfingarlæknisfræði. Ákvörðunin er tekin með hliðsjón af marklýsingu Félags íslenskra endurhæfingarlækna(FÍE) sem er viðurkennd af Evrópusambandi sérfræðilækna (UEMS) og samtökum evrópskra endurhæfingarlækna. Þessi viðurkenning er gríðarlega mikilvæg og er staðfesting á því að sú starfsemi sem fer fram bæði á Grensás og Reykjalundi standist alþjóðlegan samanburð.
Endurhæfing eins og önnur heilbrigðisvísindi er lifandi fag og verður að þróast í takt við nýja tíma og nýjar áskoranir. Þegar horft er til sögunnar hafa mestar framfarir í læknavísindum og endurhæfingu átt sér stað í kringum hörmungar bæði af mannavöldum svo sem heimsstyrjaldir og smitsjúkdómafaraldra, t.d. mænusótt og berkla.
Við lestur greinarinnar sem nefnd er hér í þessum pistli er ljóst að efla þarf endurhæfingu, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum. En til þess að það sé gerlegt verður að mennta fagfólk í endurhæfingarfræðum og það tekur langan tíma. Eftir grunnnám í háskóla má reikna með tveggja til sjö ára framhaldsmenntun. Samhliða verður að sinna vísindum og rannsóknum í faginu þannig verða framfarir og þróun.
Hlutverk endurhæfingar verður mikilvægara með degi hverjum og fjármunum sem veitt er til endurhæfingar skilar sér margfalt til baka. Aldursdreifing þjóða er að breytast og fyrirsjáanlegt að í sumum þjóðfélögum verði fleiri aldraðir og óvinnufærir en þeir sem geta stundað atvinnu. Það er mikill ávinningur fyrir þjóðfélagið en þó aðallega fyrir einstaklinginn að vera sjálfbjarga, þátttakandi í samfélaginu.
Endurhæfing verður ekki efld eða endurhæfingarstefnu hrint í framkvæmd nema fjárveiting fylgi verkefninu sjálfu og einnig til að mennta fagfólk sem síðan veitir sérhæfða þjónustu.
Magdalena Ásgeirsdóttir
Heimildir og ítarefni fyrir áhugasama.
Heilbrigðisráðuneytið
Apríl 2020
Endurhæfing Tillögur að endurhæfingarstefnu
https.//www.stjornarradid.is
https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(20)32340-0/fulltext
https://www.who.int/rehabilitation/Rehabilitation-Indicator-Menu.pdf
https://vizhub.healthdata.org/rehabilitation/
https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/01/nr/7221
Til baka