Föstudagsmolar forstjóra 1. október 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Þar sem október kemur upp á dagatalinu frá og með deginum í dag má sannarlega segja að haustið sé gengið í garð. Eins og ég kynnti í síðasta pistli mínum er ekki starfsdagur faghópa Reykjalundar í dag eins og hefð hefur verið fyrir, fyrsta föstudag í október. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að bjóða upp á starfsdag faghópa nema allir starfsmenn viðkomandi faghóps megi hittast samkvæmt sóttvarnarreglum Reykjalundar en við erum því miður ekki komin á það stig ennþá. Framkvæmdastjórn hvetur til að hver faghópur, hvort sem það er hópur sem tilheyrir heilbrigðisstéttum eða öðrum, skipuleggi starfsdag nú fyrir jól í nánu samráði við fagstjóra/yfirmann viðkomandi faghóps, þó þetta fari fram á mismunandi dögum í ljósi aðstæðna. Við erum jú öll í þörf fyrir samveru og almenna andlega næringu og því hafa starfsdagarnir líklega sjaldan verið jafn mikilvægir og nú er.
Einmitt vegna þessa hafa svo árshátíðarnefnd og formaður starfsmannafélagsins verið boðuð á fund okkar í framkvæmdastjórn í næstu viku til að fara yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi skemmtanir og árshátíð eða árshátíðarferð – ekki væri verra að það næðist snemma á næsta ári. Vonandi verður hægt að flytja spennandi fréttir af því fljótlega.
Góðir gestir í heimsókn
Þó gestakomur og fundir með aðilum utan Reykjalundar hafi verið í algeru lágmarki undanfarið hér innanhúss, opnuðust möguleikar á því eftir að Reykjalundur fór af „rauðu“ viðbúnaðarstigi. Á dögunum fékk ég heimsókn frá Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala og Óskari Reykdalssyni, forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þar sem við ræddum meðal annars möguleika á markvissara samstarfi heilbrigðisstofnanna og veitenda heilbrigðisþjónustu almennt í því skyni að gera heilbrigðiskerfið okkar skilvirkara. Það skal þó tekið fram að engar ákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum en mikilvægt að samtal fari fram. Það var líka skemmtilegt að fá að kynna þeim starfsemi Reykjalundar þó af sóttvarnarástæðum væri aðeins hægt að bjóða í takmarkaða skoðunarferð um húsið. Myndin með molum dagsins er af þeim Páli og Óskari ásamt Örnu Elísabetu Karlsdóttur deildarstjóra á hjarta- og lungnarannsóknastofunni en þar gafst tækifæri til að líta við milli sjúklinga.
Mikilvægt að hafa skýra stefnu um uppbyggingu húsnæðis og nýtingu lóðar
Í vikunni fundaði líka vinnuhópur um framtíðar uppbyggingu húsnæðis og nýtingu lóðar á Reykjalundarsvæðinu. Í fyrra var stofnaður vinnuhópur skipaður mér og Önnu Stefánsdóttur, formanni stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ásamt fulltrúum stjórnar SÍBS, þar sem markmiðið er að koma niður á blað markvissri framtíðarstefnu um uppbyggingu húsnæðis Reykjalundar og nýtingu lóðarinnar á Reykjalundarsvæðinu. Það er ljóst að möguleikarnir á okkar glæsilega svæði eru margir og er það sannarlega spennandi. Allir eru sammála um að mikilvægt sé að skýr stefna þurfi að vera til staðar um þessi mál. Það er ekki síst mikilvægt svo að það fjármagn sem sett er í viðhald og framkvæmdir núna nýtist sem best í samræmi við framtíðaráætlanir og markvisst viðhald og uppbygging eigi sér stað.
Afrakstur þessarar vinnu verður svo vonandi hægt að kynna fyrr en síðar.
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur
Til baka