Föstudagsmolar forstjóra 24. september 2021 - gestamoli er Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Vonandi tókst matar-samverustundin í hádeginu á miðvikudaginn vel og þið hafið notið. Amk hef ég fengið nokkrar góðar kveðjur þessu tengdar og séð skemmtilegar myndir 😊
Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir, iðjuþjálfi og formaður starfsendurhæfingarteymis.
Svo þarf nú líklega ekki að minna á að það eru sannarlega spennandi alþingskosningar framundan. Kannski er ekki síst fyrir okkur hér á Reykjalundi spennandi að vita hver verður heilbrigðisráðherra?
Góða helgi!
Bestu kveðjur
Pétur
Ágæta samstarfsfólk,
Haustið hefur lengi verið uppáhalds árstíðin mín með allri sinni litadýrð, rökkrinu, villibráðinni, allskonar uppskeru af grænmeti, berjum og fleira sem náttúran gefur okkur og við ræktum. Að sulta, súrsa, matreiða villibráð og ganga frá mat fyrir veturinn hefur veitt mér mikla ánægju og er ein leið til að fylla á orkustöðvarnar mínar. Ég er svo heppin að maðurinn minn er mikill veiðimaður og elskar að týna ber þá get ég gert það sem mér finnst skemmtilegra, að vinna úr því. Gleðin er ekki minni yfir að geta gefið vinum og fjölskyldu krukkur með fallegu rifsberjahlaupi eða bláberjasultu, gröfnum gæsabringum, graflax, kæfu og annað sem búið var til af ást og umhyggju.
Ég er svo heppin að vera fædd, uppalin og búið sem fullorðin á Höfn í Hornafirði sem er umvafin fallegri og fjölbreyttri náttúru, þar sem birtan frá jöklunum er einstök, stutt í litadýrð Lónsöræfanna og orkan frá þessum náttúrperlum er engu lík . Ég er alltaf jafn snortin af þessari náttúrufegurð og finn alltaf hvernig göngutúrar með útsýni til jöklanna gefa mér orku og fylla hug minn af gleði. Göngutúrar í náttúrunni eða bara að vera út í fallegri náttúru og hlusta á hana, vil ég meina að sé ein sú besta heilun og núvitund sem til er.
Um síðustu helgi hitti ég hluta af grunnskóla árganginum mínum frá Höfn. Í hópnum eru sögumenn af guðsnáð og mikið var rifjað upp af prakkarastrikum og skemmtilegum uppákomum sem fengu okkur til að veltast um af hlátri heila helgi. Hláturinn heilar og gefur orku.
Slökun og hvíld eru mikilvæg leið til að auka orku og ná andlegu og líkamlegu jafnvægi, sem betur fer er fólk alltaf að átta sig betur og betur á mikilvægi þessa þátta. Þegar ég var í endurhæfingu á Reykjalundi eftir hjartaaðgerð þá sagði læknir við mig áður en ég útskrifaðist, “það hefur engan tilgang að hamast í líkamsþjálfun, ef þú færð ekki næga hvíld, því þú verður að hafa orku til að þjálfa þig “.
En af hverju er ég að segja ykkur þetta allt?
Eftir að hafa unnið lengi með fólki sem hefur misst niður færni á einhvern hátt og hafa sjálf þurft að vinna upp færni og orku eftir veikindi, þá er það mér mjög hugleikið að aðstoða fólk við að finna út hvað það er sem fyllir á orkustöðvarnar.
Það er svo mikilvægt að spyrja sig: Hvað veitir mér gleði? Hvað get ég gert sem mér finnst skemmtilegt, til að öðlast aukna orku, til að ná bata eða viðhalda þeirri heilsu sem ég hef? Er það samvera með vinum, eru það göngutúrar í náttúrunni, sund, hjólreiðar, hlæja með einhverjum, prjóna, sauma, smíða, þvo bílinn, knúsa makann, börnin, barnabörnin, dansa, berjast um í rigningu og roki, slaka á og hvíla sig?
Ég get haldið endalaust áfram að telja upp hluti sem geta veitt gleði og ánægju því sem betur fer erum við misjöfn og höfum misjafnar langanir og þarfir. Ræktum það sem veitir okkur ánægju og orku.
Njótið haustlægðanna 😊
Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir,
iðjuþjálfi
Til baka