Föstudagsmolar forstjóra 20. ágúst 2021 - Gæðastjórar eru gestahöfundar í dag
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundar í dag eru gæðastjórarnir okkar, Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir.
Góða helgi!
Bestu kveðjur
Pétur
Föstudagsmolar 20. ágúst 2021.
Kæra samstarfsfólk á Reykjalundi!
Haustið er að ganga í garð með nýjum verkefnum og nýjum áskorunum. Vonandi höfum við flest átt ánægjulegt og endurnærandi sumarleyfi með okkar nánasta fólki þar sem við höfum náð að fylla inn í minningabankann. Þar viljum við jú hafa góða innistæðu. Nú þegar við erum óðum að týnast aftur til starfa mæta okkur, enn á ný, viðfangsefni í heimsfaraldri. Línur eru vonandi að skýrast varðandi hólfaskiptingu og sóttvarnir en í mörg horn er að líta og viðbúið að ýmis álitamál komi upp. Þetta ferðalag er í eðli sínu óvissuferð þó svo að með samvinnu allra á Reykjalundi reynum við að búa til eins mikinn fyrirsjáanleika og frekast er unnt. En nóg um þetta COVID!
Við gæðastjórar erum að taka til starfa í átaki gæðamála á Reykjalundi í samvinnu við gæðaráð, framkvæmdastjórn og starfsfólk. Þar er samvinna og traust mikilvægur þáttur til að ná árangri við innleiðingu nýrrar þekkingar og vinnubragða á þessu sviði sem er krafa nútímans í starfsemi heilbrigðisstofnanna. Slík þróunarvinna mun taka tíma enda starfsemi heildrænnar þverfaglegrar endurhæfingar yfirgripsmikil en jafnframt fagleg áskorun fyrir alla sem koma þar að óháð starfstöðvum og -sviðum. Að sama skapi er verkefnið bæði spennandi og skemmtilegt ef stjórnendur og starfsfólk horfa fram á veginn og ganga hnarreist í takt í þróun gæðamála á öllum sviðum.
Við á Reykjalundi búum í breyttu umhverfi. Í gegnum tíðina hefur starfsmannavelta verið lítil sem engin en í breyttum heimi, með kynslóðaskiptum, aukinni samkeppni um starfsfólk og auknum sveigjanleika fólks á vinnumarkaði er þetta smám saman að breytast. Í þá daga sem meðal starfsaldur á Reykjalundi var talin í tugum ára var minni þörf á skriflegum verkferlum og formfestu í gæðamálum – Við vorum kannski öll gangandi gæðaskjöl. Í breyttum heimi með auknum kröfum og þörf fyrir rafrænar gæðahandbækur felast ýmis tækifæri – tækifæri til að rýna til gagns, skoða okkar innra starf og bæta verkferla, vinnulag og upplýsingaflæði starfseminni í hag.
Grunnur að því gæðastarfi sem framundan er á Reykjalundi byggir á fagþekkingu starfsfólks á öllum sviðum – öll mál og ferlar eru gæðamál. Gæðaráð hefur lagt línurnar fyrir komandi vinnu með snörpu átaki og samhentri fagvinnu starfsmanna sem skipað hafa umbótahópa. Ítarlegar skýrslur umbótahópa liggja nú fyrir um stöðu mála og hugmyndir um hvernig má nútímavæða starfsemina í samræmi við gagnreynda vísindalega þekkingu. Þar hefur þekking og reynsla starfsfólks í þverfaglegri endurhæfingu mikið vægi. Gæðastjórar taka nú við keflinu hvað varðar framkvæmdarþáttinn og hafa kynnt sér niðurstöður umbótarhópanna, kröfur Embættis Landlæknis (EL), Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og stöðu gæðamála annarra heilbrigðisstofnanna. Drög að fyrstu aðgerðaráætlun hafa verið kynnt framkvæmdastjórn og formönnum teyma og munu verða kynnt starfsfólki í haust. Dæmi um komandi verkefni eru framsetning heildrænnar gæðastefnu, áframhaldandi gerð gæðahandbókar í gæðastjórnunarkerfinu CCQ, val á gæðavísum í endurhæfingu á húsvísu og innan meðferðarteyma til að tryggja gæði, eftirlit og árangur. Þróa þarf skráningu sem lítur að þjónustu og öryggisþáttum, samræma verkferla og vinnulag tengt biðlistum, fundum og fræðslu. Einnig þarf Reykjalundur að standa skil á árlegu gæðauppgjöri að kröfu EL sem og viðurkenndum gæðavísum starfseminnar til SÍ.
Megi gæðamálin blómstra á Reykjalundi í faglegu umhverfi þar sem frumkvæði, virðing, öryggi, þekking og árangur eru í forgangi til framtíðar, skjólstæðingum til heilsu- og hagsbóta.
Saman getum við meira!
Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir
Til baka