Föstudagsmolar forstjóra 13. ágúst 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Þakklætiskveðjur!
Þið hafið í vikunni fengið fjölda upplýsingapósta vegna skipulagsmála hér á Reykjalundi. Síðustu dagar hafa verið hreint ansi annasamir við að koma á hólfaskiptingu þar sem við höfum skiplagt starfsemina í ströngum sóttvarnarhólfum. Það þarf ekki að fjölyrða einu sinn enn af hverju við erum að þessu eða um mikilvægi aðgerðanna. Því miður má búast við að hólfaskipting af einhverju tagi verði hér af og til næstu mánuði. Það er líka mikilvægt að við sjálf virðum sóttvarnarreglur og hólfaskiptingu, annars er lítið gagn af öllu þessu brölti.
Þetta er sannarlega engum fagnaðarefni en það ánægjulega er þó, að sjá hversu lausnamiðaðir allir eru í þessu ástandi. Það eru sannarlega mörg atriði sem hefur þurft að leysa síðustu daga og frábært að sjá hversu vel það hefur gengið með samstilltu átaki. Þið eigið sérstakar þakkir skyldar fyrir ykkar þátttöku – vel gert!
Föstudagurinn þrettándi!
Þó það sé föstudagurinn þrettándi í dag er engin ástæða til að örvænta. Hjátrú tengd föstudeginum þrettánda er ótrúlega útbreidd víða um heim og er dáldið skemmtilegt að velta þessu fyrir sér. Sjálfur hef ég ekki trú á að þessi dagur sé neitt öðru vísi en aðrir dagar en iðulega þegar maður hittir fólk á þessum degi, berst hjátrú í tal. Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands ber föstudaginn þrettánda upp, einu sinni til þrisvar sinnum á ári. Þar segir jafnframt: “Á þessum degi eru margir svo óttaslegnir að þeir mæta ekki til vinnu og margir geta ekki hugsað sér að halda brúðkaup þennan dag. Í sumum borgum er þrettándu breiðgötu sleppt. Í Sacramento eru gatnamót þar sem þrettánda stræti sker þrettándu breiðgötu. Engum sögum fer þó af því að umferðarslys séu algengari þar en annars staðar. Þekkt er að í sumum hótelum og öðrum byggingum sé þrettándu hæðinni sleppt, það er að segja á eftir tólftu hæðinni kemur sú fjórtánda. Vitaskuld er fjórtánda hæðin þó í raun sú þrettánda.“
Áhugaverður fróðleikur en vonandi lætur enginn skemmtilega hjátrú trufla þennan fallega dag.
Minningar og útivera!
Það er yfirleitt bros og ánægjulegt viðmót sem mætir mér þegar ég hitti fólk sem hefur verið sem sjúklingar á hér á Reykjalundi. Margir nefna sérstaklega að þeir eigi héðan góðar minningar þó fólk hafi verið að fara í gegnum erfiða tíma í lífi sínu eins og að vinna sig upp eftir erfið áföll. Þetta er auðvitað ánægjulegt.
Eitt af því sem skapar minningar fyrir fólk hér á Reykjalundi eru bátarnir á Hafravatni. Löng hefð er fyrir því að á sumrin gefist fólk sem hjá okkur dvelur, kostur á að njóta útveru á Hafravatni sem er hér í nágrenninu.
Mynd dagsins var tekin við aðstöðu Reykjalundar við Hafravatn í morgun en fyrirsæturnar eru sjúkraþjálfararnir Ásþór og Guðlaugur sem þar stýrðu málum.
Myndin minnir okkur á að þrátt fyrir að Covid-skuggi hvíli yfir er mikilvægt fyrir okkur öll að gleyma ekki að hugsa um okkur sjálf í þessu ástandi. Passa að hreyfa okkur, njóta útiveru – ekki síst á góðviðrisdögum – rækta jákvæðni og þolinmæði – og finna okkur leiðir til að njóta lífsins eins og okkur þykir sjálfum best. Það gerir allt léttara og skemmtilegra.
Góða helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon