Föstudagsmolar forstjóra 25. júní 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
*Tjaldurinn mættur og Borðaðu froskinn!
Nú er Jónsmessan liðin og aðeins eru 182 dagar til jóla. Það þýðir að sumarið ætti að vera í fullum gangi þó veðurspá dagsins í dag sé ekki beint góð. Það hillir þó undir hlýjindi og blíðu framundan í veðurkortunum. Það fer að verða fastur punktur í sumartilverunni hér á Reykjalundi að fá Tjald í heimsókn. Við erum svo heppin að heimilisvinur, Tjaldur nokkur, er mættur aftur til leiks og gerði sér hreiður í garðinum í miðju húsnæðis okkar. Þessi Tjaldur var einmitt með hreiður sitt á sama stað í fyrrasumar. Án þess að gera sér grein fyrir því, er hann að fá mikla athygli því hreiðrið sést af göngum og skrifstofum úr öllum áttum þannig að bæði við starfsfólkið og sjúklingar, getum fylgst náið með gangi mála í þessu fjölgunarferli náttúrunnar – ég hvet ykkur til að gefa honum auga ef þið eruð ekki þegar að fylgjast með.
Talandi um náttúruna, þá langar mig að benda ykkur á áhugaverða bók til aflestrar í sumarfríinu sem heitir því merka nafni „Borðaðu froskinn!“ Þetta er nú hvorki matreiðslubók né er ég með þessu að hvetja til að Tjaldurinn okkar sé settur í það samhengi. Borðaðu froskinn er ein af mínum uppáhaldsbókum sem ég reyni að kíkja reglulega í. Bókin er alþjóðleg metsölubók eftir Brian Tracy og er lýsing á 21 leið til að hætta að fresta og afkasta meiru á styttri tíma eins og stendur á forsíðunni. Mæli með þessari bók fyrir alla!
*Sérstaða Reykjalundar felst í teymisvinnu fjölbreytts hóps sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks
Í vikunni kom fylgiblað með Fréttablaðinu þar sem fjallað var um áunninn heilaskaða. Fylgiblaðið var gefið út fyrir tilstuðlan eins starfsmanns blaðsins, sem glímir við þetta heilsufarsmál í sínu lífi. Það er þó ljóst að fyrir þennan samfélagshóp eigum við sem samfélag margt ógert og vil ég nota þetta tækifæri og hvetja stjórnvöld til dáða í þeim málum.
Við á Reykjalundi höfum tengst endurhæfingu einstaklinga með áunninn heilaskaða. Við fengum skemmtilega umfjöllun um okkar starf og viðtöl við nokkra starfsmenn í þessu fylgiblaði. Sjálfsagt er að óska tauga- og hæfingarteymi Reykjalundar til hamingju með flotta umfjöllun en þessi fjölbreytti starfsmannahópur sinnir þeim sjúklingahópi sem hingað kemur og telst til hóps með áunninn heilaskaða.
Í þessari umfjöllun kemur einmitt skýrt fram að sérstaða Reykjalundar er teymisvinna fjölbreytts hóps sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem myndar meðferðarteymi og má með sanni segja að það sé lykillinn að velgengni þjónustunnar. Í meðferðarteymunum er svo sett upp einstaklingsmiðuð endurhæfingardagskrá fyrir hvern og einn sjúkling, sem miðar að því að bæta líkamlega getu hans, andlega og félagslega líðan. Misjafnt er hvernig endurhæfingu hver og einn þarf að fá og því skiptir miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk með ólíka sérfræðiþekkingu vinni saman að bættri líðan. Í kynningu á Reykjalundi segir að markmið teymisvinnu sé að veita þverfaglega, heildræna meðferð byggða á gagnreyndri þekkingu. Áhersla er lögð á samtalsmeðferð, einstaklings- og hópmeðferð, fjölbreytta hreyfingu, námskeið og fræðslu. Afar mikilvægt er að sjúklingurinn sé virkur í endurhæfingu sinni, til að hún skili sem bestum árangri.
*Viðræður um aukið samstarf við Reykjalundar og Grenás enduhæfingar
Fyrir nokkru skrifaði í ég þessu pistli mínum um aðgerðaáætlun um endurhæfingu hér á landi til ársins 2025, sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrir jól. Þessi áætlun byggir á tillögum starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur að endurhæfingarstefnu fyrir tveimur árum, ásamt umsögnum sem bárust þegar skýrsla hópsins var birt í samráðsgátt. Meðal annars kemur á tveimur stöðum fram í áætluninni að á þessu ári verði skoðað að setja á laggirnar þekkingar- og þróunarsetur sem samvinnuverkefni Reykjalundar og Grensásdeildar Landsspítala. Í samræmi við þetta erum við að hefja samtal í litlum vinnuhópi með fulltrúum frá Grensás um þetta mál en einnig er ekki ólíklegt að skoðað verði með aukið samtarf í daglegu starfi þar sem tækifæri væru til auka samstarf, skilvirkni og þjónustu.
Við leyfum ykkur að fylgjast með þegar þessi mál skýrast frekar.
Að lokum vil ég þakka Ingibjörgu Ólafsdóttur iðjuþjálfa, fyrir störf sín í þágu Reykjalundar en nú um mánaðarmótin kveðjur hún okkur eftir farsælt starf.
Njótið helgarinnar!
Til baka