18.06.2021

Föstudagsmolar forstjóra 18. júní 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilega þjóðhátíð!
Væntanlega eru allir í þjóðhátíðarskapi eftir þjóðhátíðardaginn okkar í gær. Vonandi hafa sem flest ykkar notið dagsins, við störf eða leik eða afslöppun eða eitthvað sambland af þessu. Mér finnst alltaf eins og þjóðhátíðardagurinn sé opnunartíminn á sumarleyfum sem nú fara að bresta á.
Það var því ánægjulegt að við hér á Reykjalundi gátum haldið sumarhátíð síðasta miðvikudag, áður en sumarfríin byrja af fullum þunga. Eftir erfiðan vetur var kærkomið að geta loksins komið saman og gert okkur glaðan dag. Gunnar og félagar í eldhúsinu buðu upp á nautalundir og súkkulaðitertu í hádeginu en hátt í 300 starfsmenn og sjúklingar nutu þessarar dýrindis máltíðar. Á eftir var það Ari Eldjárn sem kom og skemmti okkur þannig að allir kæmust örugglega í sumarskapið. Myndir frá sumarhátíðinni eru væntanlegar innan skamms.
Það var mjög gaman að sjá góða þátttöku starfsfólks og sjúklinga okkar í sumarhátíðinni sem tókst bara ljómandi vel.

Góðir samstarfsmenn kvaddir
Á sumarhátíðinni notuðum við líka tækifærið og kvöddum nokkra starfmenn sem látið hafa af störfum undanfarna mánuði og ekki hafði tekist að kveðja með formlegum hætti vegna samkomutakmarkana. Þó veggir og byggingar séu sannarlega nauðsynlegar fyrir starfsemi okkar, er það þó fyrst og fremst mannauðurinn, þið ágæta samstarfsfólk, sem eru hornsteinninn að því merkilega og frábæra framlagi Reykjalundar til heilbrigðiskerfisins, sem raun ber vitni. Við viljum kveðja og þakka því starfsfólki sem hefur áralanga þjónustu að baki hér á staðnum og gott að það tókst loksins að gera. Mynd af hópnum og nánari upplýsingar koma í sérstakri frétt á heimasíðunni okkar og samskiptamiðlum.

Hollvinir Reykjalundar & Reykjavíkurmaraþon
Nú þegar samkomutakmarkanir eru að renna sitt skeið er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að Hollvinasamtök Reykjalundar eru að blása til sóknar í starfi sínu. Stjórn Hollvinasamtakanna hittist á fundi hér á Reykjalundi í vikunni þar sem ég heilsaði upp á stjórnina og Stefán framkvæmdastjóri lækninga, kynnti fyrir hópnum þá meðferð sem við höfum verið að bjóða fyrir sjúklinga sem hjá okkur eru og glíma við langvarandi einkenni eftir Covid. Meðfylgjandi mynd var einmitt tekin við það tækifæri.
Það er mikill eldmóður í stjórnarmönnum. Ákveðið hefur verið að samtökin fari í ýmsar fjáraflanir á næstunni, meðal annars með því að fá hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu til að safna áheitum fyrir Hollvinasamtökin en slík fjáröflun hefur nýst mörgum góðgerðarsamtökum vel á síðustu árum. Sjálfur ætla ég að leggja mitt af mörkum þar en kynni það betur síðar.
Ég hvet ykkur eindregið til að skoða slíkt ef þið ætlið að hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka