Föstudagsmolar forstjóra 21. maí 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Aðalfundur starfsmannafélagsins gekk heldur betur vel
Í vikunni hélt starfsmannafélagið okkar aðalfund sinn. Þó flott fólk hafi verið þar í forsvari, hefur starfsemi félagsins undanfarið heldur betur liðið fyrir ástandið í þjóðfélaginu og takmarkanir á samkomuhaldi. Flestir viðburðanna sem áttu að vera á dagskrá hafa því þurft að bíða. Ég var mjög ánægður með aðalfundinn en tæplega 50 manns mættu. Úr stjórn gengu Thelma næringarfræðingur og Sandra Ösp ritari en áfram sitja Ragnheiður launafulltrúi og Erica iðjuþjálfi. Nýir í stjórn eru Dagný iðjuþjálfi, Erla Ólafs sjúkraþjálfari, Erna Bjargey hjúkrunarfræðingur, Elfa Dröfn hjúkrunarfræðingur og Hjalti heilsuþjálfari.
Það er mikilvægt fyrir alla vinnustaði að hafa virk og skemmtileg starfsmannafélög enda hefur sýnt sig að starfsánægja er ein grunnstoðin að góðum vinnustað. Það var því gaman að sjá góða þátttöku á aðalfundinum. Þeim Thelmu og Söndru þakka ég góð störf og óska nýjum stjórnarmönnum góðs gengis, sem og allri stjórninn við að gera skemmtilegan Reykjalund ennþá skemmtilegri!
Um mikilvægi hreyfingar og ímynd Reykjalundar
Fyrir nokkru var Lárus heilsuþjálfari gestahöfundur hér í föstudagsmolunum. Hann skrifað um útiveru og ekki síst mikilvægi gönguferða í sögu Reykjalundar. Ég veit að ímynd Reykjalundar í samfélaginu er tengd útveru og hreyfingu og slík tenging er okkur á Reykjalundi sannarlega mikilvæg og til góðs, ábyggilega að öllu leiti. Þessari ímynd viljum við gjarnan viðhalda sem mest. Við höfum því þá stefnu að virkja fólkið sem við þjónustum í þessar áttir, sem og hvetja ykkur, starfsfólkið okkar, til dáða. Reykjalundur hefur meðal annars lengi boðið upp á starfsmannaleikfimi og í vikunni hófust tímarnir aftur eftir Covid-hlé. Steinunn heilsuþjálfari tók einmitt myndina sem fylgir molunum í dag í starfsmannaleikfimitíma síðasta þriðjudag.
Í tengslum við þessa ímynd okkar hafa ýmsir aðilar leitað til okkar um samstarf. Gaman er að segja frá því að við höfum til dæmis leyft tvo viðburði á landsvæði okkar á næstunni. Á morgun fer fram KB þrautin 2021, sem er um 20 km langt utanvegahlaup með ýmsum þrautum á leiðinni sem reyna á keppendur; nánari upplýsingar má finna á https://kettlebells.is. Aðra helgi mun svo Hjóladeild Aftureldingar halda spennandi fjallahjólamót þar sem stór hluti leiðarinnar verður á stígum Reykjalundar.
Aðalfundi Reykjalundar frestað
Í föstudagsmolum fyrir nokkru boðað ég dagsetningu á aðalfundi Reykjalundar, nú í lok maí. Hugmyndin er að Reykjalundur haldi árlega formlegan aðalfund sem er öllum opinn þar sem starfsemi liðins árs er gerð upp og glæstu starfi fagnað, ásamt því að ræða framtíðina og fá til okkar góða gesti. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra hafði meðal annars boðað komu sína. Því miður tókst ekki að ljúka endurskoðunarmálum í tæka tíð fyrir þennan fyrsta aðalfund og því höfum við ákveðið að fresta fundinum. Ný dagsetning verður kynnt fljótlega og þá getum við vonandi líka haldið fundinn í raunheimum sem er auðvitað miklu skemmtilegra.Að lokum óska ég öllum gleðilegrar hvítasunnuhelgar. Júróvisíon mun örugglega svífa yfir hjá okkur flestum enda tryggði frábær frammistaða Daða og gagnamagnsins í gær, okkur áfram í úrslitin á laugardaginn. Hver veit hvað gerist þá! Við óskum þeim góðs gengis og vonum að þeir smituðu verði ekki lengi að ná sér.
Góða helgi – Áfram Ísland!
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon