09.04.2021

Föstudagsmolar forstjóra 9. apríl 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þakkir til ykkar!
Mig langar til að hefja pistil dagsins á að þakka fyrir fagleg vinnubrögð undanfarna daga (og þá aðallega síðustu vinnudaga fyrir páska) við að undirbúa og aðlaga starfsemi Reykjalundar að þeim nýju sóttvarnarreglum sem tóku gildi í lok mars og gilda nú.
Við vorum bjartsýn og hófum opnanir í nánast hefðbundna starfsemi í byrjun mars hér á Reykjalundi eftir starf í marga mánuði þar á undan með miklu takmörkunum á daglegu starfi. Því miður voru þetta bara tvær vikur og hratt þurftum við að bakka til baka með breytingarnar vegna fjórðu bylgju faraldursins hér á landi. Undanfarið höfum við því stillt aftur upp starfsemi í samræmi við gildandi sóttvarnarreglur. Hefur gengið mjög vel að leysa úr þeim málum sem upp hafa komið og skipuleggja starfsemina þannig að hún nýtist sjúklingum okkar en þó í samræmi við sóttvarnarreglur.
Þetta kallar á töluverða þolinmæði og breytt vinnubrögð hjá okkur öllum. Hve vel þetta hefur gengið hjá okkur er mjög ánægjulegt sjá og vil ég þakka ykkur kærlega fyrir það!

Fræðslufundur um þjónustusamning Reykjalundar og Sjúkratrygginga – 21. apríl
Framkvæmdastjórn býður áhugasömu starfsfólki til upplýsinga- og fræðslufundar um þjónustusamning Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands í hádeginu miðvikudaginn 21. apríl. Þar förum við yfir almenn samningamál við Sjúkratryggingar, helstu atriði í samningnum okkar og hvað þau þýða fyrir Reykjalund. Fundurinn verður í fjarfundi í TEAMS nema sóttvarnarreglur leyfi annað, sem verður því miður að teljast ólíklegt. Þið eigið öll að hafa fengið boð á fundinn í tölvupósti en endilega verið í sambandi við Söndru ritara framkvæmdastjórnar ef svo er ekki.
Vonandi hafið þið gagn af (og kannski örlítið gaman)!

Hvernig gengur með samskiptasáttmálann?
Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og minna ykkur á Samskiptasáttmála Reykjalundar. Forsaga hans er að árið 2019 vann Embætti landlæknis hlutaúttekt á starfsemi Reykjalundar og skilaði skýrslu með nokkrum ábendingum um hvað betur mætti fara. Ein ábendinga skýrslunnar var að vinna úr þeirri vanlíðan sem hefur skapast hjá starfsfólki. Sérstaklega er nefnt í skýrslunni að ein leið gæti verið að vinna að samskiptasáttmála á Reykjalundi. Það var gert á síðasta ári í tíð starfsstjórnar og sáttmálinn svo kynntur síðasta sumar. Það er auðvitað mikilvægt að við séum öll sem eitt dugleg að tileinka okkur leiðbeiningar og vinnureglur sáttmálans og því vil ég minna á sáttmálann hér og nú.
Í honum er að finna níu lífsreglur í samskiptum sem eru: VIÐMÓT – VIRÐING – FAGMENNSKA – UMHYGGJA – SKILNINGUR – ÁBYRGÐ – HREINSKILNI- JAFNRÆÐI – VIÐBRÖG.  Í stuttu máli má segja að sáttmálinn snúist um einn málsháttinn sem ég fékk um páskana (já, ég fékk meira en eitt egg); að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Hér erum við að tala um einföld atriði eins og að bjóða öllum góðan dag, að allir eiga skilið virðingu og að vera teknir alvarlega, að við temjum okkur yfirvegaða og faglega framkomu, að við sýnum nærgætni og hluttekningu í samskiptum, að við gefum okkur tíma til að hlusta og spyrja, að við biðjumst strax afsökunar ef okkur verður á, að við látum í okkur heyra ef öryggi eða vellíðan samstarfsfólks er í hættu og ekki síst að koma eins fram við alla samstarfsmenn óháð aldri, kyni, trú, kynhneigð eða öðrum þáttum.
Reykjalundur er ekkert annað en við sjálf – fólkið sem hér starfar – og því er mikilvægt að okkur líði vel svo við náum að blómstra og dafna en þannig höfum við sem best áhrif á þá einstaklinga sem við viljum hjálpa, sem er jú aðaltilgangurinn. Sáttmálinn er hér í viðhengi og á innra-netinu.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka