Föstudagsmolar forstjóra 26. mars 2021
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Fjórða bylgjan!
Fyrr í dag fór fram fjölmennur starfsmannafundur hér á Reykjalundi (fjarfundur) þar sem við fórum yfir viðbrögð okkar við fjórðu bylgju Covid-faraldursins. Eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar á miðvikudag, hafa hertar sóttvarnir tekið gildi og eru þær í megindráttum þær sömu og tóku gildi 31. október á síðasta ári. Ljóst er að enn einu sinni þurfum við að breyta hefðbundinni starfsemi Reykjalundar og aðlaga að sóttvarnarreglum. Í gær og í dag hefur ekki verið í boði dag- eða göngudeildarþjónusta við sjúklinga heldur hefur staðið yfir skipulagning þjónustunnar í samræmi við þessar nýju sóttvarnir.
Við reynum að skerða þjónustuna sem minnst á komandi vikum en ljóst er að hún verður eitthvað frábrugðin þar sem ekki er hægt að sinna fullum fjölda sjúklinga. Í þessu sambandi hefur Reykjalundur í raun þrjú markmið: Í fyrsta lagi að fylgja sóttvarnarreglum í landinu og sýna samfélagslega ábyrgð. Í öðru lagi að vernda heilsu sjúklinga og starfsfólks í von um að enginn eða sem fæstir smitist. Í þriðja lagi að haga starfseminni þannig að sem fæstir fari í sóttkví ef smitaður einstaklingur kemur inn á Reykjalund. Það gerum við með hólfaskiptingu þannig að ef smit kemur upp fari eins fámennur hópur í sóttkví og mögulegt er. Þannig hefur smitið sem minnst áhrif á starfsemina.
Eins og áður segir þufum við, vegna hertra sóttvarnarreglna að snúa starfseminni aftur í hólfaskiptingu. Ánægjulegt er þó að flestir starfsmenn hafa lokið fyrri bólusetningu og eru til að mynda þeir sem fengið hafa fyrri bólusetningu frá AstraZeneca komnir með allt að 64% vörn, samkvæmt rannsóknum. Það breytir því hins vegar ekki hvaða viðbrögð verða höfð ef upp kemur smit hjá sjúklingi eða starfsmanni. Við smit fer af stað sama ferli og áður, það er sami hópur mun fara í sóttkví og áður óháð þessari bólusetningu.
Við munum því þurfa að skipuleggja samgang starfsmanna eftir því og stilla starfseminni þannig upp að ef/þegar smit kemur upp í húsi þurfi ekki að loka nema hluta af starfseminni eins og áður segir.
Ég er sannfærður um að við leysum úr þessu með farsælum hætti. Í stutt máli munum við fram að páskum útskrifa þá sem við getum í samræmi við áætlanir viðkomandi en ekki síður erum við að undirbúa breytta starfsemina eftir páska. Frá og með þriðjudeginum 6. apríl hefst svo hólfaskipt starfsemi sem kynnt verður nánar jafnóðum fyrir starfsfólki og sjúklingum. Það er að mörgu að huga en við leysum málin!
Forvitnileg tölfræði – aldurssamsetning starfsfólks Reykjalundar
Helgi, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, tók saman á dögunum aldursskiptingu starfsmanna hér á Reykjalundi og miðast þetta við þá starfsmenn sem voru í starfi um síðustu áramót. Það er forvitnilegt að skoða þetta en aldursskiptinguna má sjá á meðfylgjandi mynd. Ljóst er að töluverð breyting verður á starfsmannahópnum á næstu árum þar sem um fjórðungur starfsmanna er kominn yfir 60 ára aldurinn en annars skiptist starfsmannahópurinn nokkuð jafnt í fjóra megin aldurshópa.
Gleðilega páskahátíð!
Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og óska ykkur gleðilegra páska. Rétt eins og í fyrra fer þessi páskahátíð fram í skugga heimsfaraldursins þannig að ferðalög verða með takmörkuðum hætti. Búast má þó við að margir leggi leið sína að gosstöðvunum enda mikil upplifun að verða vitni að miklu afli náttúrunnar.
Ég vona þó að þið náið að njóta vel hvort sem þið standið vaktina, eruð í algerri slökun eða gera eitthvað skemmtilegt eins og að ganga að gosstöðvunum!
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon