19.03.2021

Föstudagsmolar forstjóra 19. mars 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Bólusetning með bóluefni AstraZeneca - Höldum ró okkar
Fyrir nokkru fór stór hluti af starfsfólki Reykjalundar í Covid-bólusetningu hjá heilsugæslunni þar sem bólusett var með bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca. Aðeins nokkrum dögum síðar var ákveðið að hér á landi eins og í fleiri löndum, yrði hætt tímabundið að nota bóluefnið vegna hugsanlegra aukaverkanna tengdum blóðtappamyndun. Málin hafa síðan verið í skoðun en eðlilega hefur þetta valdið ugg meðal starfsfólks hér á Reykjalundi eins og í öðrum hópum sem fengið hafa bóluefnið. Í þessu sambandi er mikilvægt að við höldum ró okkar enda birti Lyfjastofnun tilkynningu á heimasíðu sinni seinni partinn í gær þar sem fram kemur að sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hafi í gær lokið fyrsta mati á mögulegum tengslum bóluefnisins COVID-19 Vaccine AstraZeneca við myndun blóðtappa. Niðurstaða nefndarinnar er svohljóðandi eins og segir í tilkynningunni:

  • Ávinningur af notkun bóluefnisins til að verjast COVID-19 sjúkdómi er meiri en áhættan af notkuninni. COVID-19 sjúkdómur getur einnig valdið myndun blóðtappa og valdið andlátum.
  • Bóluefnið eykur ekki heildarlíkur á myndun blóðtappa hjá þeim sem það fá.
  • Ekkert bendir til þess að vandamál tengist tilteknum lotum eða framleiðslustöðum bóluefnisins.
  • Tengsl gætu verið milli notkunar bóluefnisins og mjög sjaldgæfra tilfella af blóðtappamyndun þar sem magn blóðflagna er líka minnkað og blæðingar kunna að fylgja. Þar á meðal eru sjaldgæf tilfelli blóðtappa í æðum þar sem blóð rennur frá heila (cerebral venous sinus thrombosis, CVST).

„Eðlilegur“ Reykjalundur nálgast óðfluga!
Um síðustu mánaðarmót byrjuðum við að afnema hólfaskiptinguna sem hefur verið hér á starfseminni síðustu 5 mánuði eða svo. Þessi breyting hefur verið öllum kærkominn léttir enda mjög erfitt í okkar daglegu starfsemi að þjónusta sjúklinga Reykjalundar í hólfum. Eftir þessa fyrstu daga virðist þetta bara vera að ganga mjög vel og vera kærkomið, bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga.
Í vikunni ákvað framkvæmdastjórn að fjarlægja hólfamerkingar sem verið hafa á gólfum og víðar þar sem við teljum málin ganga það vel að ólíklegt sé að við þurfum að snúa til baka í fyrri hólfaskiptingu. Starfsfólk ræstingar mun sjá um þetta enda mikilvægt að fjarlægja ýmsar merkingar með réttum hreinsiefnum og aðferðum. Þið látið endilega vita ef gleymst hefur að fjarlægja einhverjar merkingar.
Ný reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tók gildi í gær og gildir til og með 9. apríl n.k. Í stuttu máli felur þessi nýja reglugerð ekki í sér neinar breytingar fyrir okkur hér í starfseminni þannig að núverandi fyrirkomulag, meðal annars reglur um grímuskyldu, gildir áfram að minnsta kosti vel fram yfir páska.
Það má því segja að „eðlileg“ starfsemi og daglegt líf hér á Reykjalundi nálgist óðfluga. Við erum þó ekki kominn á leiðarenda og reglulega erum við minnt á það í fréttum að Covid-veiran er ennþá til staðar og getur skotið upp kollinum með litlum fyrirvara. Óli og Pálmi í húsumsjóninni, Elzbieta í ræstingunni og Guðrún í móttökunni voru kampakát með þetta allt þegar ég rakst á þau í morgun eins og má sjá á meðfylgjandi mynd.

Samstarf við Brunavarnir Suðurnesja
Að lokum er kannski gaman að segja frá því að í vikunni hófum við samtarf við Brunavarnir Suðurnesja. Til okkar var leitað til þess að sjá um hjartarit, lungnamælingar og blóðprufur á starfsfólki en Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem hefur séð um þetta, hefur ekki tök á því lengur. Hægt var að púsla þessu saman þannig að verkefnið trufli ekki okkar daglegu starfsemi og því bara ánægjulegt að fara í þetta samstarfsverkefni. Þið látið ykkur því ekki bregða þó hópar slökkviliðs- og sjúkraflutningafólks sjáist í húsinu öðru hverju.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka