08.01.2021

Föstudagsmolar forstjóra 8. janúar 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilegt ár og velkomin aftur!
Ég vil byrja föstudagsmola þessa árs á því að óska ykkur gleðilegs og gæfuríks árs. Vonandi hafa sem allra flest ykkar náð að njóta jólanna sem best, þrátt fyrir samkomutakmarkanir og óvenjulegt ástand. Jafnframt þakka ég enn og aftur fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á síðasta ári. Við áramót er venjan hjá mörgum að líta yfir farinn veg og setja sér markmið á nýja árinu. Ég geri það jafnan sjálfur og hef gaman af því að setja mér metnaðarfull markmið bæði í persónulegu líf og í starfi. Það skal nú alveg viðurkennast að það er ekki alltaf sem þau nást en þegar það gerist er það mjög gaman.
Ég er fullur tilhlökkunar í garð þessa nýja árs og okkar hér á Reykjalundi bíður fjöldi spennandi verkefna, þó sannarlega megi því miður búast við að stór hluti þess verði í skugga COVID veirunnar.
Eins og kynnt hefur verið, verður starfsemin hér hjá okkur í svipaðri mynd til að minnast kosti 12. janúar þegar núverandi sóttvarnarfyrirmæli falla úr gildi. Satt að segja á ég ekki von á gríðarlegum tilslökunum á næstu vikum, amk ekki nægilega miklum þannig að við getum farið í hefðbundið daglegt líf. Við munum að sjálfsögðu halda ykkur vel upplýstum um þessi mál jafnóðum.
Þó það sé gott að komast í frí, finnst mér líka alltaf gott að koma til baka í hefðbundna daglega vinnurútínu. Nú er starfið okkar komið á fullt eftir fríið og því vil ég nota þetta tækifæri og bjóða ykkur velkomin aftur – jafnframt hlakka ég til að takast á við, með ykkur, hið spennandi ár 2021!

Stöðuskýrsla um COVID smit á Reykjalundi í október 2020
Fyrir nokkru fól framkvæmdastjórn Reykjalundar Mörtu Guðjónsdóttur, rannsóknarstjóra stofnunarinnar, að taka saman skýrslu um atburðarás og ýmis mál tengd Covid-smitum sem upp komu. Marta lauk umfangsmikilli vinnu sinni rétt fyrir jól. Skýrslan var kynnt fyrir framkvæmdastjórn 22. desember og var svo til umfjöllunar á fundum framkvæmdastjórnar 23. desember og 4. og 6. janúar s.l. Fundað var með hópum starfsfólks sem málinu tengjast í gær. Nú í morgun var skýrslan svo sett á innra netið fyrir aðra starfsmenn til aflestrar ásamt greinargerð frá framkvæmdastjórn. Í greinargerðinni vill framkvæmdastjórn fara yfir þær aðgerðir sem ráðist verður í, í framhaldi af niðurstöðum skýrslunnar og samtali við starfsmenn í gær og veita ítarlegri upplýsingar/skýringar um nokkur mál sem koma fram í skýrslunni.
Mörtu eru þökkuð góð störf við gerð skýrslunnar um þetta viðamikla mál sem unnið var á skömmum tíma. Einnig viljum við þakka öllum sem veittu upplýsingar og hjálpuðu til, ekki síst þeim starfsmönnum sem rætt var við. Greinagerðin og stöðuskýrslan verða nú sendar til Embættis landlæknis til umsagnar með fyrirspurn um hvort frekari aðgerða að hálfu stofnunarinnar sé þörf.

Ljóst er að Covid smit á Miðgarði er einstakur atburður í sögu Reykjalundar. Í gang fór atburðarás og upp komu aðstæður sem allir hefðu viljað hafa öðruvísi. Nokkrir starfsmenn voru settir í mjög erfiðar aðstæður og gera þarf allt sem hægt er til að það gerist ekki aftur. Bindur framkvæmdastjórn miklar vonir við að þær aðgerðir sem settar hafa verið í gang nú þegar, sem og aðgerðir sem kynntar eru í þessari greinargerð (ekki síst liður 5), verði til þess. Framkvæmdastjórn harmar mjög að upp hafi komið þetta erfiða smit á Reykjalundi og þær vinnuaðstæður sem ákveðnir starfsmenn okkar lentu í. Við minnum samt á að ástæðan er ekki sú að samningur var gerður við Sjúkratryggingar Íslands um að taka tímabundið við sjúklingum með færni- og heilsumat, til að hjálpa til í miðju neyðarástandi íslensks heilbrigðiskerfis.
Mikilvægt er að starfsfólk Reykjalundar standi saman og vinni í sameiningu að úrbótum og horfi fram á veginn þannig að bæði starfsfólki og sjúklingum geti liðið sem best á Reykjalundi. Í starfi Reykjalundar, rétt eins og annarra heilbrigðisstofnana, þarf stöðugt að vera að uppfæra verklag og verkferla í takt við nýjar upplýsingar, reynslu og vitneskju sem fram kemur.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka