18.12.2020

Föstudagsmolar 18. desember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Óskar Jón Helgason, framkvæmdastjóri þjálfunar og ráðgjafar.
Ég óska ykkur öllum góðrar helgar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Ágæta samstarfsfólk,

Það kemur í minn hlut að skrifa síðustu föstudagsmola ársins eða í það minnsta þá síðustu sem skrifaðir eru á föstudegi. Áður en ég held lengra er best að byrja á því sem fólk er að bíða eftir í þessum pistli. Hvað er það? Jú, að tilkynna sigurvegara í jólaleik starfsmannafélagsins. Okkar frábæra starfsmannafélag lætur sko ekki smáatriði eins og samkomubann og fjöldatakmarkanir stoppa sig. Þar á bæ hugsar fólk út fyrir kassann og skelltu í þennan líka dúndur jólaleik. Sigurvegarar eru Andrea Hlín Harðardóttir, Guðrún Bergmann og Kristjana Jónasdóttir. Til hamingju!

Árið sem nú er að líða er ekkert venjulegt ár. Nokkur stór verkefni biðu starfstjórnar í upphafi árs en svo fengum við eitt ófyrirséð upp í hendurnar. Einn heimsfaraldur í kaupbæti. Í glímunni við „kófið“ hefur starfsfólk Reykjalundar virkilega sýnt hvað í þeim býr. Glíman hefur krafist lausnamiðaðrar nálgunar og hæfilegs skammts af þrautseigju. Af báðu er nóg til á lundinum góða. Starfsmenn hafa sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni og aðlagað meðferðina jafnóðum að síbreytilegum reglum og römmum. Plön sem gerð hafa verið í góðri trú á föstudegi hafa reynst úreld þegar mætt er í vinnu á mánudegi og eðlilega getur slík óvissa tekið á. Viðbrögðin hafa verið um margt aðdáunarverð og ég held að þegar frá líður eigum við eftir að átta okkur betur á hversu sérstaka tíma við erum að upplifa og hversu mikið afrek það er að hafa náð að halda starfseminni þó þetta mikið gangandi við þessar krefjandi aðstæður.

Við meigum samt ekki hrósa sigri of snemma og mikilvægt er að við höfum úthald til að sigla í gegnum þetta alla leið. Bæði innan Reykjalundar og utan verður nú vart töluverðar sóttþreytu. Raddir heyrast þar sem kallað er eftir að línur séu lagðar um „afléttingu hafta“. Þetta er mjög eðlilegt ákall en erfitt er samt að spá fyrir um framvinduna. Í gær átti framkvæmdastjórn góðan fund með fulltrúm fagráðs þar sem skipst var á skoðunum um hver næstu skref yrðu. Fundarmenn voru sammála um að ekki væru forsendur til að gera stóra breytingar í upphafi árs. Hólfaskiptingin sem við búum nú við er komin til að vera eitthvað fram eftir á næsta ári og aðskilnaður sjúklinga á meðferðasviðum 1 og 2 sömuleiðis. Þó ekki sé hægt að tímasetja að svo stöddu hvenær við byrjum að aflétta höftum mun framkvæmdastjórn senda frá sér eftir helgi nokkra punkta um í hverju fyrstu skref í átt að eðlilegri starfsemi felast. Starfsmenn geta þá hafið undirbúning þó enn sé óljóst hvenær þessi skref verða stiginn.

Í löndunum í kringum okkur er faraldurinn síður enn svo í rénun. Það er því mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að halda aftur af honum. Ef einhverjir átta sig á hugsanlegum afleiðingum þá eru það við, starfsmenn Reykjalundar, sem höfum á undanförnum vikum séð með eigin augum þær langtíma afleiðingar sem kófið getur haft í för með sér. Þó góðu fréttirnar séu að hópurinn svari vel þeirri meðferð sem þeir eru að fá hjá okkur er óskandi að hópurinn sem hefur þörf fyrir að koma til okkar verði sem minnstur. Það er því töluvert í húfi að sleppa við jólabylgjuna. Því langar mig að gera orð Rögnvaldar, sem um þessar mundir fer listilega í fötin hans Víðis, að mínum og segja: „Nú er tækifæri til að halda hógværu, lágstemdu jólin sem okkur hefur alltaf langað að halda“. Nýtum það vel.

Afleiðingar faraldursins eru svo ekki bara á þá sem sýkjast. Lokanir á líkamsræktar og íþróttaaðstöðu hafa sett hreyfirútínu margra úr skorðum, félagsleg einangrun kemur með minni samskiptum við fólk og aukin heimavinna oft við ófullnægjandi vinnuaðstöðu með tölvuna í fanginu í stofunni eða sitjandi langtímum saman á borðstofustólum eru ekki beint hjálplegir stoðkerfinu okkar. Að ekki sé minnst á hin svokölluðu covid kíló. Allt eru þetta atriði sem eru ekki beinlínis hjálpleg. Nú er því tími til að fylgja eigin predikunum. Við erum ekki svo sjaldan í vinnunni að leiðbeina um þessa blessaða lífsstílsþætti alla saman. Kíkjum nú aðeins í eigin barm og skoðum eigin rútínu. Sjálfur fann ég á heimasíðunni okkar þessar frábæru æfingar sem sjúkraþjálfararnir okkar hafa verið að setja þar inn fyrir sjúklingana að gera heima. Þarna eru ýmsar æfingar í boði og gamla bakið mitt er mun betra eftir að ég fór að gera hreyfiflæðisæfingarnar sem þarna eru. Algjör snilld. Læt því tengil fylgja með um leið og ég óska öllum gleðilegra hófstilltra jóla. https://www.reykjalundur.is/um-reykjalund/heilsuraekt/aefingar/

Bestu kveðjur

Kveðja,
Óskar Jón Helgason

Til baka