11.12.2020

Föstudagsmolar 11. desember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Guðrún Jóna Bragadóttir forstöðunæringarfræðingur.
Njótið vel og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Kæra samstarfsfólk og vinnufélagar,

Þessi árstími hefur sinn sjarma, sína töfra. Gleði, tilhlökkun og væntingar leiðast í gegnum dagana. Ljósin, ljóminn, baksturinn, jólaskreytingar, hefðirnar og ekki minnst ómur jólalaga hreyfir við okkur flestum á einhvern hátt. En þessi tími er líka mörgum þungbær og getur einkennst af sorg, söknuði og jafnvel eftirsjá. Persónulega þykir mér vænt um þennan árstíma en hann hefur líka reynst mér þungur á stundum. Ég er þess sannfærð og hef lært það og upplifað í gegnum árin, að lágstemmd stemning, samvera með fjölskyldu og vinum er það sem gleður og græðir mitt hjarta. Spyrjum fólkið sem við mætum hvernig því líður. Gefum okkur tíma til að staldra við og hlusta ef við fáum svarið, "mér líður ekki vel". Það er líka gott að minna sig á að "verðskuldað hrós er orðuð viðurkenning“. Það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur, það skiptir bara máli að það góða nái til okkar.

Ég er þeirrar skoðunar að ef við höfum ekki ánægju og gleði af því sem við störfum við, hlökkum ekki til að mæta í vinnuna að þá missum við af stóru tækifæri í lífinu. Ég er svo lánsöm að vinna við það sem mér þykir skemmtilegt. Mér þykir vænt um starfið mitt og hef mikla ánægju af því. Það eru forréttindi að eiga góða vinnufélaga sem einnig reynast mínir bestu vinir. Fyrir það er ég þakklát og þakklæti gerir mig hamingjusama.

Næringarfræðin er ung og skemmtileg fræðigrein. Nýjar upplýsingar eru stöðugt að bætast við þekkingu okkar og munu hafa mikil áhrif í framtíðinni. Næringarfræðin heldur okkur næringarfræðingum á tánum og gerir kröfu til þess að við séum opin og fróðleiksfús, alltaf, allan tímann. Ég stundaði mitt nám við Háskólann í Osló og mér eru mjög minnisstæð kveðjuorð frá einum af mínum kæru prófessorum. "Guðrún Jóna, nú telur þú þig kunna margt, þú kannt vissulega ýmislegt, en þú átt eftir að læra svo miklu meira í framtíðinni. Mundu að leggja þig fram um að mæta fólki þar sem það er statt, mundu að þú gætir sjálf setið í þeirra sporum einn daginn og mundu að þú ert ekkert betri en skjólstæðingar þínir, þú kannt bara annað en þau".  Þetta eru orð að sönnu og hafa fylgt mér og komið mér að gagni í gegnum árin. Og vissulega var ég sjálf í þeim sporum fyrir rúmum tveimur árum síðan að þiggja endurhæfingu. Næringarfræðingum hefur fjölgað hér á Reykjalundi sl. ár. Það er vissulega ástæða til að gleðjast yfir því. Ég er mjög hreykin af kollegum mínum, Thelmu Rún og Geir Gunnari. Þau eru frábært fagfólk og góðir og jákvæðir einstaklingar sem gott er að starfa með. Það er áskorun að ryðja veginn fyrir nýtt fag sem ekki er áralöng hefð fyrir á jafn stórum vinnustað og Reykjalundi. Við erum sérhæft fagfólk, með sérþekkingu sem er ekki á færi annarra fagstétta. Það er einnig stór áskorun fyrir okkur næringarfræðinga að gera okkur gildandi, sanna okkur innan endurhæfingarinnar og  njóta trausts samstarfsfólks og stjórnenda. Það hlýtur einnig að vera áskorun fyrir stjórnendur jafnt sem ólíka faghópa að skapa rými fyrir næringarfræðina. Fyrir mér er það kappsmál að næringarfræðin festi sig í sessi og verði skjólstæðingum Reykjalundar til gagns í átt að bættri heilsu, betra lífi og meiri lífsgæðum.

Já jólin eru á næsta leyti og ég hlakka til jólanna. Ólíkt forstjóranum okkar er það ekki háleitt markmið fyrir mig að finna jólatré sem er hærra en ég sjálf. Jólatré telst varla jólatré nema það nái a.m.k. 154 cm. eða hvað ?? En ég deili því með okkar ágæta forstjóra að í minni fjölskyldu eru fleiri en færri „stórskrýtnir“.

Að lokum læt ég fylgja með slóð að einu af  mínu uppáhalds  jólalagi "það snjóar" í flutningi Auðar. Mér finnst flutningurinn magnaður og sýna svo vel hvað útkoman getur orðið stórkostleg þegar allir leggjast á eitt, njóta sín og gera það sem þeir eru góðir í. Auður er frábær  listamaður en hann verður enn betri á þessu fallega sviði sem skreytt er ljósum og rómantískri stemningu. Dásamlega fallegur hljómur strengjasveitarinnar og ung og falleg danspör gera flutninginn fullkominn. Ég hvet ykkur til að hækka vel í græjunum, ekki missa af einum einasta tón frá upphafi og helst að syngja með.
https://www.youtube.com/watch?v=AGYxmSH8N7M&list=RDAGYxmSH8N7M&start_radio=1

Góðar kveðjur til ykkar allra,
Guðrún Jóna

Til baka