Föstudagsmolar forstjóra 6. nóvember 2020
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Bakvarðasveit Reykjalundar stofnuð
Það er nú kannski að fara að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa enn einn pistilinn um Cvoid og Reykjalund. Mig langaði þó að segja ykkur frá því að ákveðið hefur verið að stofna bakvarðasveit Reykjalundar.
Leitað er til heilbrigðisstarfsfólks til að mynda bakvarðarsveit til tímabundinnar aðstoðar á sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarði. Óskað er eftir liðsinni úr hópi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, sem og nema í þessum greinum, en aðrir sem telja sig geta aðstoðað eru líka vel þegnir ef á þarf að halda. Viðkomandi yrði þá beðinn að taka tímabundnar vaktir á deildinni samkvæmt nánara samkomulagi. Vonandi þarf Reykjalundur þó ekki að grípa til bakavarðarsveitar en reynslan hefur sýnt að það gæti gerst, auk þess sem Reykjalundur hefur ekki aðgang að bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Reykjalundar mun halda utan um skráningu en boð um að vera í bakvarðasveit Reykjalundar má alltaf draga til baka án skýringar.
Auglýsing um bakvarðasveitina verður birt á síðum Reykjalundar á næstunni en starfsfólk annarra eininga Reykjalundar en Miðgarðs, er auðvitað velkomið að skrá sig. Mynd dagsins er fengin að láni af vef mbl.is en ljósmyndari er ekki tilgreindur.
Um tölvupóstsamskipti á Reykjalundi
Við erum ólík, líklega jafnólík og við erum mörg. Á tæplega 200 manna vinnustað verður aldrei hægt að koma í veg fyrir að þegar upplýsingar eru sendar milli fólks þyki viðtakendum þær vera mismikilvægar. Sá sem sendir tölvupóst vill væntanlega að fleiri en færri fá póstinn svo enginn sem vildi fá hann til sín missi af honum. Þetta er eitt að því sem tilheyrir upplýsingaflæði í nútíma samfélagi. Í slíku umhverfi verður óhjákvæmilega svo að stundum fáum við upplýsingar sem við teljum okkur ekki þurfa - en það er okkar sjálfra að meta slíkt en ekki annarra. Við verðum því bara að sætta okkur við að fá meiri upplýsingar en minni og temja okkur vinnubrögð í tengslum við það um að velja og hafna. Það á ekki að taka meira en 5-10 sek að eyða einum tölvupósti og ef notuð er skipunin „subject“ er hægt að eyða öllum póstum með sama heitinu á svipað löngum tíma.
Það þarf þó ekki að draga úr skoðanafrelsi og ef okkur finnst eitthvað betur geta farið í daglegu starfi er auðvitað rétt og sjálfsagt að koma því á framfæri - en þá eftir viðeigandi leiðum og án þess að gera lítið úr öðrum. Við þurfum öll að sýna hvert öðru virðingu og nærgætni. Við höfum nýlega gefið út samskiptasáttmála og nýlega voru kynntar niðurstöður úr könnun á líðan starfsfólks hér á Reykjalundi.
Fyrir suma getur verið mikilvægt að fá að hrósa og/eða tjá öðrum þakklæti sitt, þó það sé ekki mikilvægt fyrir aðra. Flestum finnst líka gott og mjög mikilvægt í starfi sínu að fá hrós og að senda tölvupóst er ein leið til þess þó aðrar leiðir geti stundum verið heppilegri.
Eins og er, eru engar sérstakar formlegar reglur um hverjir mega senda eða hvað má setja í tölvupóst til allra starfsmanna hér á Reykjalundi. Í sumum fyrirtækjum og stofnunum eru reglur um slíkt. Við hér á Reykjalundi höfum hingað til treyst dómgreind fólks. Sé ástæða til breyta því verður það gert með faglegum hætti af upplýsingatæknistjóra, framkvæmdastjórn og/eða sérstökum vinnuhóp um slík. Meðan annað er ekki tilkynnt haldið þið því áfram að senda pósta til samstarfsfólks eins og ykkur þykja erindi til. Auðvitað er þó sjálfsagt að vanda sig og sýna virðingu, bæði í því hvaða erindi eru send og hvaða orð eru notuð.
Bara 48 dagar til jóla
Í lokin er ágætt að hafa í huga að þrátt fyrir Covid, verðum við að muna að halda áfram að vera skemmtileg og hafa eitthvað til að hlakka til. Í dag eru bara 55 dagar eftir af árinu, svo þessu lengsta ári sögunnar fer alveg að ljúka. Það eru bara 48 dagar til jóla.
Eitt af því sem við hér á Reykjalundi ætluðum að gera okkur til skemmtunar á árinu var að fá uppistandarann Ara Eldjárn í heimsókn. Við bíðum öll spennt og Ari líka en tíminn verður að leiða í ljós hvort af heimsókn hans verður á þessu ári. Ari er væntanlegur á streymisveituna Netflix á næstunni sem er sannaralega smá sárabót. Fyrir þá sem geta alls ekki beðið er hér tengill á stutt innslag með honum á Youtube: https://www.youtube.com/watch?v=OSacz4GHQjs
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon