04.11.2020

COVID endurhæfing er krefjandi og spennandi verkefni

Í fjórblöðungi Reykjalundar sem kom út í Fréttablaðinu 8. október s.l. var meðal annars viðtal við Stefán Yngvason framkvæmdastjóra lækninga. Viðtalið má lesa í heild sinni hér:

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstöð landsins og þar er unnið fjölþætt starf með mikilli sérhæfingu á mörgum sviðum. Þar er meðal annars verið að þróa meðferð fyrir fólk sem glímir við eftirköst COVID-19.

„Hjá Reykjalundi starfa átta fagteymi, hvert með sína sérhæfingu, en rauði þráðurinn í starfsemi okkar eru stóru heilsuvandamálin í samfélaginu, stoðkerfisvandamál, verkir, ofþyngd og geðheilsa,“ segir Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. „Birtingarmynd sjúkdóma er önnur í dag en fyrir nokkrum áratugum. Við lifum lengur og það þýðir að þegar við eldumst lifum við með marga sjúkdóma í stað þess að deyja fyrr á ævinni. Þess vegna þurfum við þjónustu sem tekur á mörgum þáttum samtímis.“

Verri kvillar en venjulega
„Eftir veirusýkingar getur fólk fengið ýmsa kvilla en svo virðist sem fólk sem fær slíka kvilla eftir COVID-19 fái langvinnari og fjölbreyttari einkenni en eftir aðra veirusjúkdóma,“ segir Stefán. „Fólk finnur fyrir síþreytu, verkjum, svefntruflunum, heilsukvíða og ýmsu öðru. Þetta veldur óvinnufærni hjá mörgum og það er ákall um að tekist sé á við þetta. Við bjóðum upp á meðferð og vorum ánægð með yfirlýsingu heilbrigðisráðherra um að það standi til að setja 200 milljónir króna í þessi endurhæfingarverkefni.

Meðferðin er ólík eftir einkennum og það skiptir máli að fara ekki of geyst, en ef það líða vikur eða mánuðir með sömu vandamálin þarf að grípa inn í,“ segir Stefán. „Það getur líka verið mikilvægt að fá viðurkenningu á að þetta sé vandamál sem þarf hjálp með.

Nú eru sjö í meðferð hjá okkur og 40 á biðlista. En rétt eins og með lyfjameðferðina og gjörgæslumeðferð fyrir COVID-sjúklinga, er fólk enn að prófa sig áfram og finna leiðir í endurhæfingunni,“ útskýrir Stefán. „Við gerum mælingar til að fylgjast með því hvort framfarir hafi orðið og reynum að tengja það við meðferðarúrræði. Þetta er ferli sem tekur langan tíma.“

Til baka