30.10.2020

Föstudagsmolar 30. október 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Marta Guðjónsdóttir, rannsóknarstjóri.
Njótið vel!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon


Kæra samstarfsfólk.

Um síðustu helgi vorum við enn einu sinni óþyrmilega minnt á það ægivald sem smá helv… veirukvikindi hefur yfir lífi okkar um þessar mundir. Fimm sjúklingar og sex starfsmenn  greindust smitaðir af SARS-CoV-2 og fjöldi starfsmanna var sendur í sóttkví. Meðferðarhlé hefur verið þessa vikuna og ansi tómlegt á Reykjalundi. Ég sendi þeim sem sýktust batakveðjur og vona að öll þau sem send voru í sóttkví komist þaðan eftirmálalaust.
Systkinin vísindi og listir eru helstu hjálparhellur okkar í baráttunni við veirukvikindið, það eru þau sem munu koma okkur út úr þessu. Vísindin með því að þróa meðferð við og varnir gegn veirusýkingunni þannig að þjóðfélagið fái rétt úr kútnum. Listirnar með því að gera líf okkar bærilegra og leyfa okkur að komast út úr einangruðum hversdagsleikanum með því að lesa góðar bækur, horfa á myndir og þætti, hlusta á tónlist og þar fram eftir götunum. Ég segi að vísindi og listir séu systkini, því þau sem þessar greinar stunda þurfa að búa yfir skapandi hugsun, ástríðu fyrir verkefnum sínum og mikilli þrautseigju. Myndin af Dettifossi sem fylgir hér með minnir mig á kraftinn sem vísindi og listir búa yfir.

„Vísindi efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa,“ kvað þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson um árið. Jónas var ekki bara ljóðskáld og afbragðs nýyrðasmiður heldur einnig öflugur náttúruvísindamaður. Tilviljun? Vísindadagur Reykjalundar er haldinn ár hvert þriðja föstudag í nóvember og ber einmitt stundum upp á fæðingardag Jónasar, dag íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Í ár höldum við vísindadaginn í 17. sinn þann 20. nóvember. Í ljósi aðstæðna verður hann með talsvert breyttu sniði frá því venjulega. Eingöngu verða haldin erindi og þeim verður streymt. Hvorki veggspjöld né súkkulaðikaka verða að þessu sinni en þó tilefni til að gera sér dagamun. Ég legg til að mannskapurinn fari í betri fötin tímanlega fyrir útsendingu og setjist í hátíðarskapi fyrir framan skjáinn til að hlusta á samstarfsfólk sitt og nemendur þeirra kynna niðurstöður rannsókna sinna. Það verður gott hlé frá veiruamstri hversdagsins.

Á síðasta ári voru 20 ár frá því staða rannsóknarstjóra var sett á fót og fimm árum síðar tók vísindaráð til starfa. Það var afar mikilvægt fyrir rannsóknarstjóra að fá þann öfluga liðsauka í að byggja upp og viðhalda vísindavirkni því mannskepnan er ekki eyland. Þetta þekkjum við Reykjalundarfólk vel sem lifum og hrærumst í teymisvinnu alla daga, ár og síð.
Reykjalundur er ein þeirra stofnana sem sinna starfs- og vísindaþjálfun nemenda við háskóla landsins og hefur veiran skapað miklar áskoranir á þeim vettvangi. Tekist hefur verið á við þær með mikilli útsjónarsemi og þrautseigju og vel hefur sést hversu mikilvægir nemendur eru Reykjalundi til að halda uppi góðu faglegu starfi og vísindavirkni. Í vor sem leið höfðu 47 nemendur lokið við meistaraprófsverkefni undir leiðsögn starfsmanna Reykjalundar. Sum af þessum verkefnum hafa gefið af sér ritrýnda tímaritsgrein, sem er hinn mikilvægi lokapunktur í hverri rannsókn. Nánari upplýsingar um vísindavirkni á Reykjalundi er að finna heimasíðu Reykjalundar: https://www.reykjalundur.is/visindi/
Niðurstöður vísindarannsóknar, sem að hluta var unnin á Reykjalundi og kynnt var á vísindadegi Reykjalundar 2017, sýndu að hreyfing úti við í náttúrunni eflir viðhald litningaenda (e. telomere) meira en hreyfing í manngerðu umhverfi svo sem líkamsræktarstöðvum. Og hver vill ekki hafa langa (og glæsilega) litningaenda sem draga úr hrörnun og minnka áhættu á sjúkdómum? Með þessa vitneskju í farteskinu hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að „hoppa kátir út um gluggann“ og njóta útivistar um helgina.

Góðar stundir,
Marta Guðjónsdóttir rannsóknarstjóri.

Til baka