25.10.2020

Meðferðarhlé á Reykjalundi vikuna 26.-30. október vegna Covid-smita

Á fimmtudag kom upp grunur um smit á deildinni Miðgarði á Reykjalundi en Miðgarður sem er sólarhringsdeild með 14 rúmum. Á deildinni dvöldu í síðustu viku 16 sjúklingar þar sem Reykjalundur hefur verið að leggja sitt af mörkum síðustu daga með því að taka við sjúklingum af Landspítala til að létta þar á. Á fimmtudagskvöldið greindust tveir starfsmenn deildarinnar jákvæðir. Samstundis voru flestir starfsmenn og allir sjúklingar deildarinnar settir í sóttkví í samræmi við markvissa verkferla um sóttvarnir og varnir gegn smitleiðum, í samráði við Smitrakningarteymi Almannavarna og Landspítala.

Í gær lágu fyrir niðurstöður úr sýnatöku og hefur því miður komið í ljós að fimm úr sjúklingahópnum eru jákvæðir fyrir Covid-veirunni og er einn þeirra kominn með einkenni. Umræddir sjúklingar voru af öryggisástæðum fluttir af Reykjalundi á Covid-deildir Landspítala seint í gærkvöldi eftir að sjúklingunum og aðstandendum þeirra hafði verið kynnt staða mála.

Af þessum fimm sem smitaðir eru komu þrír frá Landakoti á Reykjalund í síðustu viku.

Nú hafa því 5 sjúklingar og 5 starfsmenn greinst jákvæðir fyrir Covid-veirunni undanfarna þrjá sólarhringa. Jafnframt eru um 30 aðrir starfsmenn Reykjalundar komnir í sóttkví vegna þessa eins og er, auk þeirra 11 sjúklinga sem eftir eru á deildinni Miðgarði.

Sem betur fer, hafa í ljósi stöðunnar verið í gildi mjög strangar sóttavarnarreglur á Reykjalundi síðustu vikur. Starfsemin hefur farið fram í skilgreindum sóttvarnarhólfum þannig að starfsemi Miðgarðs hefur verið aðskilin annarri starfsemi. Síðan málið kom upp hefur starfsfólk annara deilda á Reykjalundi komið til aðstoðar við að manna vaktir á Miðgarði og ýmis verk og verkefni sem þessu erfiða máli tengjast, ekki síst þar sem nánast allt starfsfólk Miðgarðs er í sóttkví. Ljóst að það starfsfólk fer ekki til baka í sín hefðbundnu störf næstu daga.

Vegna þessa hefur framkvæmdastjórn Reykjalundar ákveðið að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar í næstu viku (vikuna 26.-30. október) og hefur þetta áhrif á endurhæfingarmeðferðir hátt í annað hundrað skjólstæðinga Reykjalundar. Þetta þýðir að gert verður hlé á starfsemi allra átta meðferðarteyma Reykjalundar þessa viku. Starfsemi heilsuræktar Reykjalundar verður áfram lokuð. Starfsemi sólarhringsdeildarinnar á Miðgarði sem og starfsemi Hleinar halda áfram, en búast má við einhverri skerðingu á þjónustu þar.

Í dag verður hringt í sem flesta (vonandi alla) af þeim skjólstæðingum okkar sem eiga að koma í dag- og göngudeildarþjónustu í næstu viku. Við á Reykjalundi þjónustum viðkvæman hóp og því mikilvægt að sýna ítrustu varkárni til að tryggja sem best hag allra sem tengjast Reykjalundi.

Enn og aftur vil ég minna á að koma fram af virðingu við þá sem málum tengjast og sendum öllum bestu batakveðjur. Jafnframt vil ég senda sérstakar þakkarkveðjur til starfsfólks Miðgarðs og allra annara starfsmanna Reykjalundar sem hafa verið að koma þar beint til starfa eða tengjast verkum og verkefnum tengdum þessum málum.

Að lokum vil ég harma þau óþægindi sem þetta mál hefur fyrir sjúklinga og aðra skjólstæðinga Reykjalundar, sem og aðstandendur þeirra.

Pétur Magnússon
Forstjóri Reykjalundar

Til baka