16.10.2020

Reykjalundur opnar tímabundið 10 rýma biðdeild frá Landspítala

Þriðja bylgja Covid-19 faraldursins er nú í hámarki hér á landi og því miður bendir margt til að hún verði stærri en fyrsta bylgjan í vor. Samstaða er klárlega besta sóttvörnin og því er mikilvægt að allir aðilar í þjóðfélaginu standi saman í því að berja niður veiruna og að fjöldi sýktra verði í lágmarki. Eins og fram hefur komið býr Landspítali sig undir mjög erfitt ástand þar sem sjúklingum með Covid fjölgar og miðað við fjölda smita undanfarið má búast við fjölgun sjúklinga sem þurfa að leggjast inn næstu vikur. Leitað hefur verið til Reykjalundar að leggja sitt af mörkum með því að hýsa tímabundið sjúklinga með færni- og heilsumat sem nú liggja inni á spítalanum en það er fyrst og fremst þannig sem Reykjalundur gæti lagt sitt af mörkum til að létta af spítalanum í því ástandi sem nú er. Það er sannarlega ekki kjarnastarfsemi Reykjalundar að starfrækja rými fyrir einstaklinga með færni- og heilsumat en á erfiðum tímum er Reykjalundur auðvitað tilbúinn að axla samfélagslega ábyrgð af fullum krafti.

Í morgun var gengið frá samningi milli Reykjalundar og Sjúkratrygginga Íslands um að Reykjalundur myndi starfrækja tímabundið 10 rými fyrir einstaklinga með gilt færni- og heilsumat, á sólahringsdeildinni Miðgarði. Gildir samningurinn til 15. desember en þá þurfa heilbrigðisyfirvöld að vera búin að finna aðra lausn fyrir viðkomandi einstaklinga þar sem Reykjalundur er lokaður yfir jól og áramót.

Markmið samningsins er að auðvelda útskrift af Landspítala í tengslum við Covid faraldurinn og jafnframt að tryggja öldruðum og/eða fjölveikum einstaklingum einstaklingsmiðaða, heildræna og örugga þjónustu í hjúkrunarrými meðan beðið er eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili.  Þeir sem koma á Reykjalund eru sjúklingar sem eru með gilt færni- og heilsumat, í bið eftir varanlegu hjúkrunarrými og hafa tilvísun til tímabundinnar dvalar frá Landspítala. Fulltrúar Landspítala og stjórnendur Miðgarðs munu hafa samráð um val á einstaklingum í rýmin og koma fyrstu einstaklingarnir frá Landspítala á Reykjalund strax í dag.

Vegna þessa dregur tímabundið úr endurhæfingarstarfsemi á Miðgarði en að öðru leiti ætti þetta aðeins að valda lágmarkstruflun á annarri hefðbundinni starfsemi Reykjalundar. Starfsfólk Miðgarðs og aðrir starfsmenn Reykjalundar, sem að þessu verkefni koma, eiga miklar þakkir skyldar fyrir sitt framlag, skilning og jákvæðni enda er hér um mjög óvenjulegt verkefni að ræða fyrir Reykjalund sem krefst þess að fólk sé tilbúið að leggja margt á sig þannig að hægt sé að veita þessum nýju þjónustuþegum Reykjalundar sem besta þjónustu.

Til baka