Samstaðan er besta smitvörnin!
Í Morgunblaðinu og á mbl.is á föstudag birtist grein eftir Pétur Magnússon og Stefán Yngvason. Bæði RÚV og Mannlíf gerðu frétt um greinina og fréttatími Stöðvar 2 tók auk þess stutt viðtal við Pétur í beinni útsendingu í kvöldfréttum á föstudaginn.
Umfjöllun Ruv um greinarskrifin:
https://www.ruv.is/frett/2020/10/09/beidnum-um-endurhaefingu-eftir-covid-19-fjolgar
Umfjöllun Mannlífs um greinina:
https://www.man.is/frettir/yfirmenn-reykjalunds-um-covid-tiu-prosent-fa-langvinn-veikindi-ungt-og-friskt-folk-sleppur-ekki/
Greinin sjálf:
Þessa dagana rís þriðja bylgja Covid19-faraldursins sem hæst hér á landi og er óhætt að segja að við lifum á einstökum tímum í okkar samfélagi. Mikilvægt er að allir aðilar í þjóðfélaginu standi saman í baráttunni gegn þessum vágesti þó ástandið sé sannarlega farið að reyna vel á þolinmæði okkar allra. Veiran fer ekki í manngreinarálit og getur komið upp hvar sem er. Veiran veldur ekki bara ótímabærum andlátum og erfiðum veikindum hjá áhættuhópum. Sumir þeirra sem sýkjast og fá jafnvel ekki mikil einkenni geta samt verið að glíma við eftirstöðvarnar í langan tíma eftir sýkingu. Það er því ekki í boði að leyfa veirunni að leika lausum hala. Enginn vill hafa það á samviskunni að smita aðra manneskju þannig að hún hljóti varanlega skaða af.
Endurhæfing covid-sjúklinga á Reykjalundi
Í upphafi faraldursins gerðu Reykjalundur og Landspítali samning um að Reykjalundur myndi sinna endurhæfingu covid-sjúklinga af Landspítala. Það voru sjúklingar sem lagst höfðu inn á spítalann vegna covid-sýkingar og þurftu endurhæfingu til að geta útskrifast; komast á fætur og aftur út í hið daglega líf. 16 einstaklingar fóru í gegnum þetta ferli á Reykjalundi í vor. Í sumar og haust hefur orðið töluverð umræða um eftirköst þeirra sem sýkst hafa af covid og endurhæfingu þeirra. Þetta er hópur fólks sem sýktist en fékk ekki endilega mikil einkenni, a.m.k. ekki það mikil að þurfa að leggjast inn á spítala. Hins vegar hafa borist margar beiðnir á Reykjalund um endurhæfingu þessa hóps þar sem fólkið glímir við einkenni löngu eftir smit. Nú eru komnir sjö í meðferð á Reykjalundi með þessa lýsingu. Yfir fjörutíu einstaklingar eru á biðlista og fjölgar beiðnunum í viku hverri. Þessa dagana er Reykjalundur að setja í gang sérstakt úrræði til að þjónusta þennan hóp með það að markmiði að koma þeim aftur út á vinnumarkaðinn og út í lífið eins og hægt er.
Um 10% sjúklinga virðast fá langvarandi einkenni
Enginn veit með vissu hvað sá hópur er stór sem fær langvarandi einkenni eftir covid-smit. Þótt nákvæmar rannsóknir skorti hafa sérfræðingar erlendis leitt að því líkum að það séu að minnsta kosti 10%. Þessi hópur er að glíma við eftirstöðvar mörgum vikum eða mánuðum eftir sýkingu. Þetta lýsir sér í fjölbreytilegum einkennum svo sem síþreytu, þrekleysi, verkjum og öndunarfæraeinkennum svo dæmi séu nefnd. Merkja má viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart smiti síðan í vor. Hjá yngra og miðaldra fólki var hugsunin oft sú að viðkomandi vildi ekki smitast til að verða ekki valdur að því að smita aðra, til dæmis nána ættingja eða vini sem væru í áhættuhópum og gætu orðið alvarlega veikir eða jafnvel dáið. Í dag er vitað að hluti þeirra sem sýkjast getur þurft að glíma við langvarandi einkenni sem leiða til skerðingar á starfsorku og lífsgæðum, jafnvel í mjög langan tíma. Þar sjáum við að frískt fólk, t.d. í yngri kantinum og miðaldra, getur vel lent í þessum hópi.
Ákvarðanir byggðar á gögnum og þekkingu á eðli smitsjúkdóma
Við Íslendingar getum hrósað happi að hafa „þríeykið“ okkar við stjórnvölinn. Þótt margir hafi sannarlega lagt hönd á plóginn í baráttunni við covid hér á landi þarf samt öfluga leiðtoga með bein í nefinu til að stýra málum, lesa í aðstæður á hverjum tíma og hafa dug til að láta ekki undan alls kyns þrýstingi og sérhagsmunum. Þótt margt sé vitað um hvernig samfélög eiga að bregðast við alvarlegum smitsjúkdómum þá er ný veira með óþekkta eiginleika ávallt mikil áskorun. Meta þarf stöðuna og taka ákvarðanir á degi hverjum. Oftar en ekki þarf að bregðast hratt við og byggja á þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Sumt af því sem gert er má eflaust gagnrýna í baksýnisspegli, en þegar ákvarðanir hafa verið teknar er mjög mikilvægt að fylgja þeim. Auðvitað bitnar ástandið mjög mismunandi á okkur sem samfélagsþegnum og því þarf að sýna skilning og umburðarlyndi.
Stöndum saman!
Á tímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum saman. Sundrung og sérhagsmunir eru besti vinur veirunnar. Nú ríður á að við Íslendingar vinnum saman, fylgjum leiðbeiningum og sigrum þessa veiru. Aðeins þannig vinnum við okkur út úr þessu ástandi. Það er því vel við hæfi að enda á orðum Þórólfs sóttvarnalæknis: Samstaðan er besta smitvörnin!