Föstudagsmolar forstjóra 9. október 2020
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Föstudagsmolarnir eru heldur seint á ferðinni þennan föstudaginn enda hefur verið mikið í gangi þessa vikuna.
Þriðja bylgja Covid faraldursins stefnir í óþekktar hæðir
Eins og ég sendi ykkur starfsfólki, í tölvupósti í gær, höfum við hér á Reykjalundi fengið óvenjulega beiðni frá heilbrigðisyfirvöldum. Þriðja bylgja Covid faraldursins vex nú ógnarhratt og síðustu daga hefur orðið alger viðsnúningur í faraldrinum hér á landi og margar vísbendingar um að þriðja bylgjan slái samfélagið mun fastar en sú fyrsta í vor. Þá var Landspítali betur í stakk búinn til að taka við stórum hópi Covid-sjúklinga því meðal annars var þá opnað nýtt, stórt hjúkrunarheimili sem tók á einu bretti fjölda einstaklinga af spítalanum, sem þar biðu og voru með færni- og heilsumat. Það er ekkert svoleiðis núna og enn á ný er það hópurinn með færni- og heilsumat sem er lang stærsti hópurinn þarf að færa til svo spítalinn geti þjónað bráðatilvikum og tilvikum vegna Covid-sýkinga.
Heilbrigðisyfirvöld hafa nú biðlað til heilbrigðisstofnanna landsins um að létta af Landspítalanum öllu sem hægt er. Við erum beðin eins og aðrir að setja hefðbundna þjónustu til hliðar og hjálpa til eins og mögulegt er. Um er að ræða að taka sjúklinga sem liggja inn á spítalanum og geta ekki útskrifast – og rýma þannig til fyrir sjúklingum sem gætu þurft að leggjast inn með alvarleg einkenni af völdum Covid. Ekki er þörf á sambærilegri þjónustu enn af hálfu Reykjalundar og var í fyrstu bylgju faraldursins í vor og því hljóðar beiðnin upp á að við tökum tímabundið við sjúklingum með færni- og heilsumat.
Eins og fram kom pósti mínum í gær til ykkar er mikilvægt að hafa í huga að búið er að taka umræðuna við stjórnvöld um að Reykjalundur hefur litla reynslu af rekstri hefðbundinna hjúkrunarrýma og húsnæðið er kannski ekki mjög hentugt fyrir slíka starfsemi. Jafnframt hefur verið rætt að helsta áhyggjuefnið er samt að ef við fetum þessar brautir erum við að draga úr endurhæfingastarfsemi okkar á meðan. Biðlistar í endurhæfingu á Reykjalund hafa aldrei verið lengri en einmitt nú. Sumt af þeirri starfsemi er mjög sérhæft og ekki í boði annars staðar. Auknir biðlistar, sem fylgja klárlega þessari aðgerð, kalla auðvitað á aukinn kostnað annars staðar í kerfinu og því ekki spennandi kostur að dregið sé úr þessu í marga mánuði. Síðast en ekki síst hefur komið fram í viðræðunum að það hafa verið ræddar margar hugmyndir undanfarið um aukna starfsemi á Reykjalundi. Flestar þær sem við höfum áhuga á að skoða tengjast endurhæfingarstarfsemi. Sérhæfing Reykjalundar liggur í endurhæfingunni og þar nýtast kraftar Reykjalundar klárlega best í þágu heilbrigðiskerfisins og samfélagsins. Það er líka gott að hafa í huga að búið er að leita til nánast allra heilbrigðisstofnanna í landinu með sama erindi.
Miðgarður væri með biðrými fyrir Landspítala
Mikilvægt er að allir aðilar í þjóðfélaginu standi saman í baráttunni gegn þessum vágesti þó ástandið sé sannarlega farið að reyna vel á þolinmæði okkar allra. Framkvæmdastjórn Reykjalundar ákvað nú síðdegis að við værum tilbúinn að leggja til hliðar, hluta af hefðbundnu meðferðarstarfi og koma að lausnum, með tímabundnum hætti, á því neyðarástandi sem nú stefnir hratt í, hér í heilbrigðiskerfi landsins. Verði af þessari aðkomu okkar myndi Reykjalundur taka að sér að starfrækja 5-10 sólarhringsrými fyrir sjúklinga af Landspítala með gilt færni- og heilsumat tímabilið 12. október til 11. desember 2020. Til að valda sem minnstu raski á almennri starfsemi Reykjalundar myndu rýmin vera staðsett inn á núverandi sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarði. Við myndum leggja mikla áherslu á að virða tímamörkin. Rýmin yrðu sjálfsagt kölluð Biðrými frá Landspítala. Deild B-2 verður því ekki nýtt sem sólahringsdeild eins og verið var að skoða fyrir nokkrum dögum.
Í framhaldi af þessari ákvörðun fundaði ég, ásamt Láru framkvæmdastjóra hjúkrunar og Stefáni framkvæmdastjóra lækninga, með starfsfólki Miðgarðs nú seinni partinn þar sem við fórum yfir málin og vil ég nota þetta tækifæri og hrósa starfsfólki Miðgarðs fyrir skilningi, málefnalega umræðu og lausnamiðuð vinnubrögð í þessu skrýtna ástandi.
Gott er að hafa í huga að ekki hefur verið ákveðið að fara í þessar aðgerðir ennþá heldur hefur þetta aðeins verið boðið stjórnvöldum.
Við leyfum ykkur að fylgjast með um leið og eitthvað er frekar að frétta.
Endurhæfing sjúklinga með langvinn einkenni eftir Covid-19 smit
Fyrir nokkru tók vaskur hópur hér innanhúss að sér undirbúa ferli fyrir endurhæfingu sjúklinga með langvinn einkenni eftir Covid. Því hefur á undanförnum vikum farið fram undirbúningur hér á Reykjalundi að meðferð fyrir sjúklinga sem búa við margvísleg langvinn einkenni og skerta starfsgetu í kjölfar sýkingar af völdum Covid-19 veirunnar. Endurhæfingarmat hefur þegar farið fram á sjö einstaklingum sem munu hefja meðferð nú á mánudaginn, 12. október. Yfir 40 manns eiga beiðni á Reykjalund vegna þessa heilsuvanda. Meðferðin mun í byrjun notast við aðferðafræði lungnaendurhæfingar. Hluti starfsfólks lungnateymis mun taka þátt en einnig starfsfólk annarra teyma. Framkvæmdastjórn hefur falið Eyþóri Björnssyni yfirlækni lungnateymis, Guðbjörgu Pétursdóttur hjúkrunarstjóra og Ingibjörgu Bjarnadóttur iðjuþjálfa og teymisstjóra lungnateymis að leiða verkefnið og þróa það í samstarfi við önnur teymi eftir því sem við á. Starfsemin mun í byrjun fara fram á B-2 en í framhaldinu verður staðsetning og aðkoma annara teyma skoðuð. Ekki er að svo stöddu vitað hvert umfang verkefnisins verður og því mun framkvæmdastjórn þurfa að fá reglulega upplýsingar um stöðu verkefnisins og þróun þess.
Um leið og ég óska ykkar góðrar helgar vil ég þakka ykkur öllum fyrir skilning, þolinmæði og samvinnuna í þessari afmælisviku Reykjalundar þar sem hátíðarhöld og lífið sjálft hefur heldur betur tekið óvænta stefnu. Samstaðan er besta sóttvörnin!
Góða helgi!
Pétur Magnússon
Til baka