02.10.2020

Föstudagsmolar forstjóra 2. október 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Afmælisvika Reykjalundar framundan - plan E (vonandi ENDANLEGT plan)

Mér er ánægja að kynna fyrir ykkur dagskrá afmælisviku Reykjalundar í næstu viku.
Reykjalundur er 75 ára í ár og viljum við endilega minnast þessara tímamóta en þann 1. febrúar 1945 tók Reykjalundur til starfa og fyrsti sjúklingurinn var innritaður.
Vegna Covid mála hefur afmælisárið sannarlega verið óvenjulegt og hefðbundinni starfsemi verið hnikað til með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Á þessu tímabili hefur verið mikið á ykkur lagt og töluverður tími farið í að greiða úr málum og leysa, þannig að farsælar lausnir finnst. Fyrir utan verulega truflun á daglegum störfum okkar allra hefur allt félagslegt starf verið í algeru lágmarki og ljóst að ýmsir viðburðir sem hér voru í deiglunni eins og fjölskylduhátíð starfsmannafélagsins, árshátíð og fleira munu ekki líta dagsins ljós, amk ekki þetta árið. Við í framkvæmdastjórn höfum því viljað gera allt sem mögulegt er svo afmælishátíðin verði að veruleika og teljum okkur nú vera komin niður á farsæla lausn þó hún sé orðin nokkuð frábrugðin því sem lagt var upp með.

Í því ástandi sem nú ríkir, er eðlilegt að hafa áhyggjur af sóttvörnum. Ákvörðunin um afmælisvikuna er tekin að vel yfirlögðu ráði. Dagskránni hefur verið töluvert breytt og skipulagið aðlagað að sóttvarnarsjónarmiðum. Nýtt skipulag á dagskrá tekur mið af því að sóttvarnir séu í heiðri hafðar og veit ég að við öll getum fylgt því, þó við hefðum gjarnan viljað hafa þetta öðru vísi.

Helstu breytingar frá því sem kynnt hefur verið er að setningarathöfn með Ara Eldjárn hefur verið frestað. Vonumst við til að fá Ara í heimsókn í staðinn í lok október eða byrjun nóvember. Jafnframt höfum við ákveðið að fella niður afmælisráðstefnuna 8. október og hætta við starfsdag sem átti að vera föstudaginn 9. október.

Eins og góður maður sagði, þá getum við ekki hætt að lifa og ef við öll höfum sóttvarnir að leiðarljósi er ég sannfærður um að þessi afmælisvika á eftir á takast með ljómandi fínum hætti og verða skemmtileg skrautfjöður í hatt Reykjalundar.
Vonast ég eftir góðu samstarfi allra við að gera góðan Reykjalund ennþá betri!

Dagskráin fylgir hér:

Mánudagur 5. október

  • Veggspjaldasýning opnar á „bláa ganginum“
  • Afmæliskaka í boði fyrir alla starfsmenn og skjólstæðinga sem eftirréttur í matsalnum í hádeginu.
  • Heimsókn og uppistandi Ara Eldjárn er frestað.

Þriðjudagur 6. október  kl. 11:30 – 13:00  AFMÆLISMÁLTÍÐIN

  • Hátíðar hádegisverður, framreiddur í matsal af okkar frábæru starfsmönnum þar fyrir skjólstæðinga og starfsmenn.
  • Til að tryggja jafna dreifingu fólks í matsalinn á opnunartíma hefur verið ákveðið að hafa ekki tónlistaratriði eins og upprunalega stóð til.

Miðvikudagur 7. október

  • Óvæntur afmælisglaðningur í boði starfsmannafélags Reykjalundar og Reykjalundar

Fimmtudagur 8. október – 15:00-16:00 PUB-QUIZ

  • Stutt afmælisumfjöllun um afmæli Reykjalundar fylgir með Fréttablaðinu.
  • Æsispennandi Pub Quiz í boði starfsmannafélagsins í fjarfundarbúnaði undir stjórn Bjarna töframanns kl 15:00-16:00.
  • Hætt hefur við afmælisráðstefnu Reykjalundar sem fram átti að fara kl 13-15 þennan dag.

Föstudagur 9. október

  • Nýr og glæsilegur kynningarbæklingur verður formlega gefinn út.
  • Því miður falla niður starfsdagar og hefðbundið meðferðarstarf er í gangi.

Góða helgi og gleðilega afmælisviku!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka