11.09.2020

Föstudagsmolar forstjóra 11. september 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

75 ára afmælisvika Reykjalundar 5.-9. október 2020.
Eins og kynnt hefur verið, fagnar Reykjalundur 75 ára afmæli á þessu ári. Ákveðið hefur verið að minnast þessara tímamóta með sérstakri afmælisviku hér á Reykjalundi 5.-9. október núkomandi. Í afmælisvikunni verður einn viðburður á hverjum degi. Langar mig að nota tækifærið hér í molum dagsins til að segja ykkur frá afmælisvikunni og koma aðeins spennu í hópinn fyrir afmælinu. Hver dagskrárliður verður svo kynntur betur þegar nær dregur og allt verður að taka með ákveðnum fyrirvörum um sýkingavarnir og fleira.
Gaman er jafnframt að geta þess að í október munum við halda þeirri skemmtilegu hefð að maturinn í hádeginu er gjaldfrjáls fyrir starfsfólk Reykjalundar.

Setning afmælisviku, mánudaginn 5. október
Kl 13 munum við setja afmælisvikuna formlega í samkomusalnum og bjóða öllum upp á afmælistertu. Góður gestur kemur í heimsókn og skemmtir okkur meðan tertan rennur ljúflega niður. Þennan dag verður jafnframt opnuð veggspjaldasýning um starfsemi Reykjalundar sem Sandra Ösp mun senda nánari upplýsingar um á næstunni.

Afmælis-hádegisverður, þriðjudaginn 6. október
Í hádeginu munu Gunnar kokkur og félagar bjóða upp á afmælismáltíð og ekki er ólíklegt að eitthvað tónlistarfólk aðstoði okkur við að njóta afmælismatarins.

Reykjalundar-leikarnir, miðvikudaginn 7. október
Í samvinnu við Starfsmannafélag Reykjalundar höldum við Reykjalundar-leikana þennan dag. Ykkur starfsfólki verður skipti niður í nokkur lið og þurfa öll lið að leysa fjölbreyttar þrautir eftir ákveðnum reglum.
Lagt er upp með að allir geti tekið þátt og verða þrautirnar því mjög fjölbreyttar. Þeir sem eru góðir í íþróttum eru kannski ekkert endilega góðir að greina jurtir, setja upp excel-skjal eða prjóna, er það?

Afmælisráðstefna, fimmtudaginn 8. október
Kl 13 blásum við til afmælisráðstefnu Reykjalundar sem fram fer á hótel Natura undir yfirskriftinni „Mikilvægi endurhæfingar í íslensku samfélagi“. Öllu starfsfólki Reykjalundar og ýmsum öðrum verður boðið til þátttöku þar sem heilbrigðisráðherra, landlæknir og fleiri áhugaverðir fyrirlesarar munu taka til máls.

Starfsdagur faghópa, föstudaginn 9. október
Afmælisvikunni viljum við ljúka með því að hvetja faghópa til að halda árlega starfsdaga sína og ljúka vinnuvikunni með óhefðbundnum en vonandi skemmtilegum hætti. Við munum hvetja sérstaklega þær einingar í starfseminni, sem ekki tilheyra ákveðnum faghópum, til að halda einnig starfsdag og kynnum við það betur fyrir þeim.

Allt í sambandi við afmælisvikuna verður kynnt mun betur þegar nær dregur en myndin sem fylgir molunum er einmitt af þremur gestum afmælisvikunnar. Nú er bara að fara að láta sig hlakka til!

Að lokum vil ég óska sjúkraþjálfurum til hamingju með alþjóða daginn sinn sem var síðast liðinn þriðjudag.

Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka