Föstudagsmolar forstjóra 14. ágúst 2020
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Afmælisvika Reykjalundar 5.-9. október
Þrátt fyrir að Þórólfur og félagar séu þessa dagana að hvetja fólk til að takmarka veisluhöld á næstunni hugum við hér á Reykjalundi samt að veisluhöldum síðar á árinu. Eins og flestir vita fagnar Reykjalundur 75 ára afmæli sínu á þessu ári en starfsemin hófst árið 1945. Fyrstu 15 árin dvöldu aðeins berklasjúklingar á Reykjalundi en rétt fyrir 1960 komu fram lyf við berklum og þá varð ljóst að ekki væri lengur þörf á endurhæfingu fyrir þennan sjúklingahóp í sama mæli og áður. Á næstu árum breyttist starfsgrundvöllur Reykjalundar og áhersla í endurhæfingu varð fjölbreyttari. Reykjalundur breyttist í alhliða endurhæfingarmiðstöð sem er raunin nú og við þekkjum – þá stærstu hér á landi. Nú eru um 1.500 manns á biðlista inn á Reykjalund en 1.000-1.200 manns fara í gegnum meðferð á ári. Flestir eru í 4-6 vikur.
Framkvæmdastjórn hefur nú ákveðið að vikan 5.-9. október verði sérstök afmælisvika í tilefni af 75 ára afmælinu. Hugmyndin er þá að gera eitthvað skemmtilegt og afmælistengt á hverju degi í þeirri viku, þar sem hápunkturinn yrði afmælisráðstefna 8. október þar sem heilbrigðisráðherra, landlækni og fleirum hefur verið boðin þátttaka. Við munum samt auðvitað hafa í heiðri sóttvarnir og þær reglur sem gilda um fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir og því verðum við sennilega að hafa tilbúnar 2-3 útgáfur af afmælisdagskránni.
Þetta verður nú betur kynnt þegar nær dregur en það er bara um að gera að fara að hlakka til!
Innleiðing VinnuStundar
Þessar vikurnar erum við að innleiða nýtt tímaskráningakerfi starfsfólks hér á Reykjalundi. Síðustu ár höfum við notað kerfið Bakvörð sem tengist stimpilklukkunum okkar. Nú er hins vegar verið að skipta yfir í annað kerfi sem heitir Vinnustund. Vinnustund er mikið notað af öðrum heilbrigðisstofnunum og sveitarfélögum, svo dæmi séu tekin. VinnuStund heldur utan um tíma- og fjarvistaskráningar starfsmanna ásamt því að vera tæki til að skipuleggja vinnutíma þeirra og halda utan um orlof.
Þær Ragnheiður launafulltrúi og Guðbjörg mannauðsstjóri hafa borið hitann og þungann af þessari breytingu, sem gerð er skref fyrir skref og með einni deild í einu, en þær stöllur eru einmitt á myndinni sem fylgir molunum í dag.
Það er ósk mín að þið sýnið þessu breytingaferli þolinmæði og jákvæðni enda er ég sannfærður um að þegar VinnuStund hefur verið að fullu innleidd verður kerfið okkur til bóta.
Reykjalundur og endurhæfing einstaklinga sem fengið hafa Covid
Gaman er að segja frá því að Reykjalundur hefur verið töluvert í fjölmiðlaumræðunni síðustu daga og þá sérstaklega hvað varðar aðkomu okkar að endurhæfingu fólks sem greinst hefur með Covid. Þessi umræða varpar án efa jákvæðu ljósi á starf okkar hér á Reykjalundi. Helstu atriðin í þessu eru að í upphafi faraldursins gerðu Reykjalundur og Landspítali samning um að Reykjalundur myndi sinna endurhæfingu Covid-sjúklinga af Landspítala. Það voru þá sjúklingar sem lagst höfðu inn á spítalann með Covid og þurftu endurhæfingu til að geta útskrifast; komast á fætur og aftur út í hið daglega líf. 16 einstaklingar fóru í gegnum þetta ferli á Reykjalundi í vor.
Síðustu vikur hefur orðið töluverð umræða um „léttari“ Covid-sjúklinga og endurhæfingu þeirra. Þetta er hópur fólks sem sýktist en fékk ekki mikil einkenni, amk ekki það mikil að þurfa að leggjast inn á spítala. Hins vegar eru að byrja koma beiðnir um endurhæfingu þessa hóps. Enginn veit hvað hópurinn er stór. Þó nákvæmari rannsóknir skorti ennþá er flestum að verða ljóst að töluverður fjöldi þeirra sem sýkjast og jafnvel fá ekki mikil einkenni, geta verið að glíma við eftirstöðvarnar mörgum vikum eftir sýkingu, sem lýsa sér í formi þreytu, úthaldsleysis og öndunarfæraeinkenna svo dæmi séu nefnd. Nú eru komnir tveir í meðferð inn á Reykjalund með þessa lýsingu og á annan tug einstaklinga á biðlista sem fer að koma inn. Framkvæmdastjórn hefur nú ákveðið að skipa vinnuhóp til að skilgreina betur ferlið tengt endurhæfingu þessa hóps svo þjónustan verði með sem markvissustum hætti.
Að lokum vil ég koma á framfæri þakklæti til Gunnars kokks og hans fólks, sem og allra annara sem komu að grillveislunni góðu í hádeginu síðast liðinn miðvikudag, sem tókst vel í alla staði.
Góða helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon