Föstudagsmolar forstjóra 3. júlí 2020
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Kórónuveiran er ekki horfin
Flest okkar ættu að vera meðvituð um að blessuð kórónaveiran er síður en svo horfin úr lífi okkar. Í gær greindust til dæmis fimm ný smit á landinu. Það er því mikilvægt að við sem störfum í heilbrigðiskerfinu og höfum viðkvæma einstaklinga í okkar höndum, förum einstaklega gætilega í umgengni um þessi mál og séum fyrirmyndir annara. Í vikunni hefur gengið á ýmsu hjá okkur þegar hluti starfmanna fór í sóttkví meðan beðið var niðurstöðu úr sýnatökum, sem betur fer reyndist hagstæð fyrir okkur. Þar var ánægjulegt að sjá samvinnu og metnað við að bregðast við með markvissum hætti.
Vegna þessa höfum við farið yfir verkferla og ýmis mál hjá okkur og Magdalena yfirlæknir á Miðgarði leitt vinnu því tengdu, en sjálfur sat ég stöðufund um málið í vikunni.
Við fylgjumst grannt með málum í næstu viku og tökum svo stöðuna með frekari aðgerðir þegar sumarhléi lýkur.
Málefni Hleinar
Undanfarið hefur verið nokkur umræða um málefni Hleinar í okkar hópi, sérstaklega í ljósi þess að þegar nýja félagið um Reykjalund, Reykjalundur endurhæfing ehf var stofnað var starfsemi Hleinar ekki færð inn í nýja félagið. Ástæða þessa er að Hlein er nokkuð annars konar rekstur en hefðbundin endurhæfingarstarfsemi Reykjalundar og tengist til dæmis ekkert okkar aðalþjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Sérstakur þjónustusamningur er milli okkar og Sjúkratrygginga um rekstur og starfsemi Hleinar. Vangaveltur um þessi mál er því kannski ekkert óeðlilegar.
Það er því gott að hér komi fram að við á Reykjalundi munum endurnýja samninginn um rekstur Hleinar og eru samningaviðræður langt komnar. Vonandi liggur nýr samningur fyrir í haust sem mun gilda til tveggja ára. Ekki standa yfir viðræður við neinn aðila um breytingar á starfsemi Hleinar eða um að starfsemin fari úr okkar höndum. Hins vegar gæti svo farið að þau mál verði skoðuð í framtíðinni en verði farið í slíkt ferli eða viðræður, verður það kynnt sérstaklega fyrir starfsfólki Hleinar, íbúum og ættingjum þeirra, að slíkt standi til.
Heiðursfólk kveðjur Reykjalund
Í vikunni kvöddum við tvo vaska starfsmenn sem hafa verið hjá okkur mjög lengi. Þetta eru annars vegar þau Ingibjörg Flygenring, félagsráðgjafi, sem starfað hefur hér í um 30 ár en lætur nú af störfum sökum aldurs. Hins vegar Jón Gunnar Þorsteinsson, sjúkraþjálfari, sem var hjá okkur í tæp 25 ár en hann hefur nú ákveðið að halda á nýjar slóðir. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim báðum fyrir góð og glæst störf fyrir Reykjalund með bestu óskum um velfarnað að Reykjalundarlífinu loknu.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Guðbjörg mannauðsstjóri, Ingibjörg, Jón Gunnar og undirritaður.
Góða helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon