Föstudagsmolar forstjóra 12. júní 2020
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Starf framkvæmdastjóra þjálfunar og ráðgjafar auglýst í lok júní
Eins og flestir vita var eitt af verkefnum starfsstjórnar Reykjalundar að koma að endurbættu skipulagi/skipuriti Reykjalundar. Nýtt skipurit var kynnt fyrir nokkru og tók það gildi nú 1. júní. Ein af breytingunum þar er að komið er inn nýtt starf í Framkvæmdastjórn Reykjalundar, starf framkvæmdastjóra þjálfunar og ráðgjafar.
Ég vildi nú upplýsa ykkur um að þessa dagana er í gangi vinna við að skilagreina helstu atriði er varða verkefni, staðsetningu í húsi og fleira sem tengist starfi framkvæmdastjóra þjálfunar og ráðgjafar. Hugmyndin er að auglýsa starfið laugardaginn 27. júní í Fréttablaðinu og á fleiri stöðum. Það fer eftir umsækjendafjölda og fleiru hversu langan tíma ráðningaferlið tekur og auðvitað ekki ljóst hvenær viðkomandi getur svo hafið störf.
Fram af því, hef ég hugsað mér að reyna að leysa sjálfur úr þeim málum sem tengjast starfinu. Held að það geti verið gagnlegt fyrir alla aðila að forstjóri kynnist starfseminni vel frá ykkar hliðum.
Sjálfsvörn sinnir merkilegu starfi
Í hádeginu á miðvikudaginn var ég viðstaddur aðalfund félagsskaparins Sjálfsvarnar. Sjálfsvörn er Reykjalundardeild SÍBS og var stofnuð sem félag vistmanna á Reykjalundi 13. febrúar 1945 og hefur starfað síðan. Mikil breyting hefur verið á starfi deildarinnar í gegnum tíðina í takt við þróun starfsins á Reykjalundi. Í dag eru meðlimir rúmlega tvö hundruð, aðallega starfsfólk Reykjalundar en einnig fólk sem hefur verið í meðferð á Reykjalundi, aðstandendur þeirra og fyrrverandi starfsmenn. Hlutverk félagsins er að stuðla að góðum aðbúnaði þeirra sem eru í meðferð á Reykjalundi.
Mér fannst forvitnilegt að kynnast þessum félagsskap ekki síst í ljósi þess að í lok aðalfundarins afhenti félagið Báru Sigurðardóttur forstöðuiðjuþjálfa, hægindastóla að gjöf fyrir tæpar 2 milljónir króna. Tekjur Sjálfsvarnar eru aðallega umboðslaun vegna sölu á Happdrættismiðum SÍBS - safnast þegar saman kemur. Það var vel við hæfi að ég gengi í félagið og Maren Ósk iðjuþjálfi og formaður Sjálfsvarnar seldi mér svo happdrættismiða í kjölfarið þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Munið bara að merkja við ”Reykjalundardeild” þegar keyptur er miði.
Endilega verið dugleg að svara könnuninni!
Eins og kynnt var í síðustu viku hefur Félagsvísindastofnun nú sent út könnun til að meta líðan starfsmanna Reykjalundar. Gæðaráð fól umbótahópi um samskipti og mannauð að standa fyrir slíkri könnun í kjölfar úttektar embætti landlæknis sem gerð var s.l. haust en þar kom fram ábending um, að kanna og vinna úr þeirri vanlíðan, sem skapast hefur hjá starfsfólki og efla gæðastarf. Könnunin er rafræn og mig langar að nota þetta tækifæri til að hvetja alla til að taka þátt, tekur aðeins örstutta stund. Umbótahópur um samskipti og mannauð mun síðan nýta niðurstöður og skila tillögum um umbætur til gæðaráðs.
Að lokum vil ég minna alla á að fyrirhugað verkfall hjúkrunarfræðinga sem boðað hefur verið 22. júní n.k. tengist Reykjalundi ekki og hefur því engin áhrif á daglega starfsemi hjá okkur. Verkfallið á aðeins við hjá hjúkrunarfræðingum sem starfa hjá ríkinu en ekki öðrum.
Annars óska ég ykkur góðrar og gleðilegrar helgar!
Pétur Magnússon.
Til baka