10.03.2020

Nýr samningur um þjónustu Reykjalundar

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samning við Reykjalund, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, um endurhæfingarþjónustu stofnunarinnar. Samningurinn tekur gildi 1. apríl næstkomandi og er til tveggja ára, með möguleika á framlengingu um tvö ár til viðbótar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samninginn sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og stjórnendur Reykjalundar undirrituðu í heilbrigðisráðuneytinu fyrir helgi. Aðilar segja samninginn marka þáttaskil og muni efla og styrkja í sessi þá mikilvægu endurhæfingarþjónustu sem Reykjalundur annast á landsvísu.

Með samningnum er lögð áhersla á skilvirkni, skýra forgangsröðun og ýtarlega skilgreiningu á þeirri þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita. Þetta leiðir til þess að unnt verður að auka framboð endurhæfingarþjónustu Reykjalundar frá því sem verið hefur. Kveðið er á um að Reykjalundur setji sér mælanleg markmið um gæði og árangur þjónustunnar og að beitt verði viðurkenndum aðferðum til að meta árangurinn. Niðurstöður árangursmælinga fyrir hvert meðferðarsvið Reykjalundar skulu kynntar Sjúkratryggingum Íslands í ársskýrslu.

Sjúklingar hvaðanæva af landinu geta sótt þjónustu á Reykjalundi. Til að fullnægja skilyrðum um jafnræði landsmanna skal þar boðin gisting fyrir þá einstaklinga sem búa fjarri stofnuninni. Einnig er í samningnum kveðið á um að gisting skuli standa til boða þeim sem af heilsufars- félagslegum eða öðrum ástæðum geta ekki nýtt sér endurhæfingu án þess. Á Reykjalundi eru samtals 60 gistirými í þessu skyni.

Hópmeðferð fyrir fólk með heilaskaða er ný þjónusta hjá Reykjalundi sem sérstaklega er kveðið á um í samningnum. Viðbótarframlag vegna þeirrar þjónustu nemur 20 milljónum króna. Áskilið er að talmeinafræðingur og taugasálfræðingur starfi hjá stofnuninni til að sinna þeirri þjónustu.

Fjárveiting til endurhæfingarþjónustu Reykjalundar á þessu ári nemur tæpum 2,1 milljarði króna.

Sjá nánar á stjornarradid.is

Til baka