22.10.2019

Til starfsfólks Reykjalundar

Kæra samstarfsfólk.

Upplýsingar og samskipti

Ég vil upplýsa ykkur um þau viðfangsefni sem ég og framkvæmdastjórn Reykjalundar höfum verið að einbeita okkur að á síðustu dögum.
Lykilatriði er að draga úr óvissu og í þeim tilgangi finnst mér mjög mikilvægt að þið fáið upplýsingar frá mér frá fyrstu hendi. Framkvæmdastjórn er nú fullmönnuð og saman berum við ábyrgð gagnvart þjónustukaupa á faglegri og rekstrarlegri starfsemi Reykjalundar.  Við erum búin að halda fundi með nokkrum starfshópum og viljum ljúka því sem fyrst að hitta þá alla.
Á þeim fundum hef ég lagt áherslu á að við horfum fram á veginn. Við þurfum að setja sjúklingana í öndvegi og það hafið þið sannarlega gert.  Eftir situr að enn ríkir reiði og það er á ábyrgð okkar allra að vinna úr því.  Ég ætla að leggja mitt af mörkum þar og vil segja ykkur hér hvernig ég sé fyrir mér næstu skref. Ég kýs og vil samráð ykkar og mun nýta mér fundi, samtöl og upplýsingasöfnun í þeim tilgangi.

Kröfur forstjóra til SÍBS

Þegar ég tók tímabundið við starfi forstjóra á Reykjalundi setti ég fram tvær kröfur gagnvart stjórn SÍBS. Fyrst ber að nefna kröfu um að áheyrnarfulltrúi SÍBS myndi víkja úr framkvæmdastjórn við þetta tímamark. Á þá kröfu mína var fallist. Framkvæmdastjórn Reykjalundar er því algjörlega sjálfstæð og óháð aðkomu stjórnar SÍBS. Þá ber að nefna að ég gerði skýra kröfu um að starf forstjóra yrði auglýst eins fljótt og auðið er og að stjórn SÍBS fengi þar til hæfa aðila til að annast ráðningarferlið.  Á þá kröfu var einnig fallist og er undirbúningur ráðningarferlis nú hafinn. Ég vil endurtaka, að þegar ég féllst á að taka tímabundið við starfi forstjóra var sú ákvörðun á engan hátt auðveld eða léttvæg.  Ég tel hins vegar að ég geti lagt mitt að mörkum og langar að eiga þátt í því með ykkar hjálp að byggja hér hratt upp að nýju.

Þjónustusamningur Reykjalundar

Samningsumboð Reykjalundar við Sjúkratryggingar íslands er hjá forstjóra og framkvæmdastjórn. Framlenging á núverandi samningi til næstu áramóta hefur verið staðfest af heilbrigðisráðherra.  Vandað hefur verið vel til undirbúnings að gerð nýs samnings og eru drög að nýjum samningi  langt komin. Í fyrirliggjandi drögum er gert ráð fyrir að samið verði um 29.000 meðferðardaga á ári í stað 26.000 meðferðardaga eins og nú er.  Þetta er um 11,5% aukning meðferðardaga.  Engin breyting er ráðgerð á samsetningu teyma en áhugi er fyrir því að opna fyrir viðbætur og nýjungar í þjónustunni.  Göngudeildarstarfsemi, legudeildarstarfsemi og gistiþjónusta er áfram inni í samningnum. Ráðgert er að gerður verið sérstakur samningur um starfsemina hjá Hlein.

Teymisvinna og mönnun

Fagráð Reykjalundar hefur lýst yfir áhyggjum af teymisvinnu.  Framkvæmdastjórn mun gera viðeigandi ráðstafanir nú þegar 4 læknar hafa sagt upp starfi sínu á Reykjalundi. Eðlilega höfum við öll áhyggjur af uppsögnum. Fólk spyr hvað verði um teymisvinnuna, innlagnir sjúklinga og aðra þætti þjónustunnar. Framkvæmdastjórn mun leitast við að tryggja nægjanlega mönnun með öllum tiltækum ráðum og tryggja að þjónusta við sjúklinga verði samfelld og óskert.

Hlutverk framkvæmdastjórnar og skipurit

Framkvæmdastjórn er ávallt samsett í þeim tilgangi að stýra heildarhagsmunum Reykjalundar og aðkoma og hlutverk allra faghópa og starfshópa þarf að vera skýr. Sérfræðiþekking á málefnum endurhæfingar er sannarlega tryggð í framkvæmdastjórn þar sem saman fer mikil reynsla af stjórnun í heilbrigðisþjónustu og stjórnun og framkvæmd á klínískri endurhæfingu. Dagleg starfsemi við þjónustu sjúklinga gengur vel en atburðir síðustu vikna hafa skilið eftir óróa hjá okkur. Ég mun halda áfram að mynda tengsl við ykkur og hitta starfshópa.  Ég sé það sem lausn og hef kynnt það fyrir þeim starfshópum sem við höfum hitt að nauðsynlegt er að ljúka stefnumótun og endurskoða núverandi skipurit og auka skilvirkni í öllum samskiptum. Í því skyni tel ég ráðlegt að endurskoðun skipurits fari fram þegar ráðningarferli forstjóra er lokið.

Framtíðar aðkoma SÍBS að starfseminni á Reykjalundi

Atburðir síðustu vikna hafa vissulega haft áhrif á okkur öll og er ég sannarlega ekki þar undanskilin.  Ég tek undir þau sjónarmið að félagasamtök eigi ekki að hafa beina aðkomu að daglegri stjórn heilbrigðisstofnana.  Til að fyrirbyggja að atburðir síðustu vikna geti endurtekið sig tel ég nauðsynlegt að endurskoða aðkomu stjórnar SÍBS að starfsemi Reykjalundar. SÍBS er vissulega eigandi Reykjalundar en það útlokar ekki að taka til skoðunar núverandi fyrirkomulag með hagsmuni sjúklinga, faglegrar starfsemi og starfsmanna að leiðarljósi.  Ég hef óskað eftir samtali við stjórn SÍBS um þessi mál og tel afar áríðandi að tillögur að breyttu fyrirkomulagi verði leiddar til lykta á næstu 3-6 mánuðum.

Með kæru kveðju
Herdís Gunnarsdóttir, Forstjóri

Til baka