15.10.2019

Tímabundin ráðning í starf forstjóra Reykjalundar

Herdís Gunnarsdóttir framkvæmdastjóra endurhæfingarsviðs á Reykjalundi, hefur verið sett tímabundið til að gegna starfi forstjóra á Reykjalundi, eða til 1. febrúar 2020, eða þar til lokið hefur verið við ráðningu nýs forstjóra. Stjórn SÍBS hefur tekið þá ákvörðun, eins og áður var kynnt, að hefja nú þegar undirbúning að ráðningu forstjóra og verður starfið auglýst í fjölmiðlum laust til umsóknar nú í október.

Herdís hóf störf sem framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs hjá Reykjalundi þann 1. október s.l. Herdís hefur margþætta reynslu af rekstri og stjórnun í heilbrigðiskerfinu á síðusu 20 árum. Hún var forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) frá 2014 í 5 ár. HSU er ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins með þjónustu á sviði heilsugæslu, sjúkraflutninga, sjúkrahúsa og hjúkrunarrýma, með 500 starfmenn á 10 starfsstöðvum og veltir um 6 milljörðum.  Undir hennar stjórn fór fram endurskipulagning í rekstri, endurskoðun á kjarnastarfsemi og skipulagi heilbrigðisþjónustu í umdæminu samhliða fordæmalausri aukningu verkefna, fjölgun íbúa og vaxandi eftirspurn eftir þjónustu. Jafnframt hefur hún reynslu við forystu um innleiðingu fjölda breytinga, greiningar- og framkvæmdaverkefna, nýjunga í ferlum og nýsköpun í þjónustu, m.a. fjarheilbrigðisþjónustu og teymisvinnu í heilsugæslu.  Jafnframt hefur hún stýrt útboðslýsingum fyrir verðkannanir og örútboð og hefur leitt samningagerð við fyrirtæki og Sjúkratryggingar Íslands. Hún hefur víðtæka reynslu af mannauðsmálum og uppbyggingu starfsmannastefnu, innleiðingar jafnréttisstefnu og áætlana um aðgerðir vegna eineltis, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnustað.

Herdís lauk BSc-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og meistaraprófi í hjúkrun frá sama skóla árið 2001. Árið 2009 lauk Herdís MBA-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Áður vann hún um árabil að margvíslegum verkefnum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, m.a. sem verkefnastjóri og klínískur ráðgjafi hjá stjórn heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar, verkefnastjóri á þróunarskrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar, verkefnastjóri mannauðs- og gæðamála hjá Barnaspítala Hringsins og sem hjúkrunardeildarstjóri á barnaskurðdeild og dagdeild. Hún stundaði háskólakennslu í tvo áratugi samhliða störfum á Landspítala og hefur hlotið hæfi sem klínískur lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ. Herdís hefur að auki um árabil setið í stjórnum félagasamtaka, stéttarfélaga, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja.

Herdís mun tímabundið taka við starfi forstjóra frá deginum í dag að telja, 15. október 2019. Fer hún með heimildir til að stjórna daglegum rekstri, stjórnun og mannauðsmálum Reykjalundar í samræmi við 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu og ber samkvæmt því ábyrgð á þeirri þjónustu sem Reykjalundur veitir sem og að starfsemin sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Samhliða hefur verið gengið frá ráðningu í starf framkvæmdastjóra lækninga og er framkvæmdastjórn Reykjalundar nú fullskipuð. Frá deginum í dag að telja mun stjórn SÍBS því draga sinn áheyrnarfulltrúa úr framkvæmdastjórn Reykjalundar og stjórnarformaður SÍBS mun láta af starfi sem starfandi forstjóri Reykjalundar.

Reykjalundur hefur um áratugaskeið haft mikilvægu hlutverki að gegna við endurhæfingu sjúklinga hér á landi. Starfsemi Reykjalundar hefur ávallt notið stuðnings, velvilja og skilnings almennings og því er mikilvægt að Reykjalundur sé, hér eftir sem hingað til, í stakk búinn að sinna hlutverki sínu gagnvart sjúklingum.

Til baka