05.12.2017

Styrktar- og sjúkrasjóður verslunarmanna í Reykjavík gefur Reykjalundi tæki

Styrktar- og sjúkrasjóður verslunarmanna í Reykjavík gáfu Reykjalundi nýverið tæki á sjúkraþjálfunardeild Reykjalundar að andvirði 28 milljónir króna, í tilefni 150 ára afmælis sjóðsins. Gjöfin er afskaplega fjölbreytt og mun nýtast mjög vel í endurhæfingunni á Reykjalundi. Hún samanstendur af tveimur Nustep fjölþjálfum, fimm Cybex sethjólum, fimm E-motion þrekhjólum, þremur Cybex göngubrettum, Matrix endurhæfingargöngubretti, Matrix fjölþjálfa, útirafmagnsreiðhjóli, þremur æfingabekkjum, þremur meðferðarbekkjum og vinnukollum, höggbylgjutæki, tveimur nuddvélum, laserpenna, þríhöfðalaserpenna, stuttbylgjutæki, hljóðbylgjutæki, göngubrú með gaspumpu og fullkomnum trissuhring með öllum fylgihlutum og tveimur lausum trissum. Sjóðurinn hefur tvívegis áður gefið Reykjalundi stórar gjafir og er þetta því í þriðja skipti sem Reykjalundur fær veglega gjöf frá sjóðnum. Formleg afhending var föstudaginn 1.desember. Þá afhenti Bjarni Árnason forseti fjáröflunarnefndar og fyrrverandi formaður SSVR forstjóra Reykjalundar Birgi Gunnarsyni gjöfina. Fjölmenni var við athöfnina.

Til baka