Fysio Flow - nýjung a Reykjalundi
Sjúkraþjálfararnir Anna Sólveig Smáradóttir, Berghildur Ásdís Stefánsdóttir og Kristjana Jónasdóttir eru að byrja með nýlegt hreyfiúrræði fyrir innritaða skjólstæðinga Reykjalundar. Þessir tímar verða einu sinni í viku, á föstudögum kl. 10.00 í Speglasalnum og kallast þeir Fysio Flow en það er nýlegt danskt æfingarkerfi sem byggt er á vísindalegum grunni. Unnið er með bandvefi líkamans með það fyrir augum að auka hreyfanleika og vinna með þá þætti taugakerfisins sem hafa slakandi áhrif á líkamann. Bandvefur liggur á milli húðar og vöðva og er í nokkrum lögum (djúpt lag og grunnt).
Þar sem vefur mætir öðrum vef s.s. vöðvar, húð, bandvefur og taugavefur, þarf að geta orðið hreyfing og hefur sú hreyfing gríðarleg áhrif almennt á getu líkamans til að hreyfa sig. Hreyfingarnar snúast um langa hreyfiferla og þátttakendur fylgja eftir hreyfingunum og upplifa. Aðalatriðið er að líða vel og leyfa hreyfingunum að „flæða“ en minna er um reglur um hvernig skuli hreyfa sig og beita sér.
Með hreyfingarleysi, auknum aldri og við stress og streitu getur bandvefurinn dregist saman, orðið þurr og stífur, og við fáum þá upplifun að verða “stíf í skrokknum.” Þetta getur einnig verið ein orsök verkja.
Horfa þarf á hreyfingar líkamans sem eina heild frekar en einn og einn vöðvahóp. Bandvefur í hnakka tengist þannig bandvef niður í hæl og tá.
Sjúkraþjálfarar hafa hingað til tekið þessa meðferð meira á einstaklingsbasis en nú langar okkur að setja þetta kerfi í hóptíma á Reykjalundi einu sinni í viku hverri. Uppbygging tímanna gæti orðið þannig að í fyrstu er farið í standandi upphitun þar sem hreyfingar eru mjúkar en taktfastar. Við það hitnar líkaminn og við fáum vökvakerfi bandvefsins í gang með dúandi hreyfingum. Síðan förum við í virkar, mjúkar, flæðandi hreyfiteygjur sem ná yfir nokkra liði samtímis og í allar áttir. Í lokin er svo góð slökun.
Í Danmörku hafa sjúkraþjálfarar í nokkur ár notað Fysio Flow til að fyrirbyggja og meðhöndla streitutengd einkenni og skerta hreyfigetu. Tímarnir fara fram í rólegu umhverfi með róandi tónlist.
Markhópur: Allir eiga að geta tekið þátt og fengið jákvæð áhrif af Fysio Flow æfingum.
Þjálfunin gæti nýst skjólstæðingum á Reykjalundi með einkenni vegna kvíða, streitu, verkja, vefjagigtar, stífleika, hræðslu við að hreyfa sig svo dæmi séu tekin.
Til baka