Niðurstöður rannsóknar birtast í Læknablaðinu
Vísindagrein frá Reykjalundi birtist í septemberhefti Læknablaðsins og fjallar hún um áhrif endurhæfingar á þrek, holdafar og heilsueflandi hegðun hjartasjúklinga með sykursýki af tegund 2.
Markmið rannsóknarinnar, sem greinin fjallar um, var í fyrsta lagi að kanna algengi sykursýki af tegund 2 í hópi þeirra sem koma til hjartaendurhæfingar og bera saman við almennt úrtak Hjartaverndar frá sama tímabili. Í öðru lagi að bera saman árangur endurhæfingar sykursjúkra hjartasjúklinga og annarra hjartasjúklinga. Fylgst var með hugsanlegri áhættu við þjálfun hjartasjúklinga með sykursýki af tegund 2, sérstaklega með tilliti til mögulegra blóðsykurfalla eða annarra áfalla. Sambærileg rannsókn á hjartaendurhæfingu sykursjúkra hefur ekki verið gerð áður hér á landi.
Rannsóknin leiddi í ljós að sykursýki 2 er algengari í hjartaendurhæfingu en í almennu þýði á Íslandi. Hjartasjúklingar með sykursýki eru að jafnaði feitari og með heldur lélegra þrek og minni svörun við þjálfun en aðrir hjartasjúklingar. Eftirfylgd í 6 mánuði sýndi hins vegar að aukning varð í reglulegri hreyfingu meðal hópsins og það endurspeglaðist í bættri göngugetu. Engin alvarleg tilvik urðu af blóðsykurföllum eða hjartatengdum áföllum í rannsóknarhópnum á meðferðartímanum.
Greinina er hægt að lesa í heilu lagi hér.
Til baka