10.06.2014

Meistara- og kandídatspróf á Reykjalundi

Í vor hafa tveir nemendur lokið við framhaldsverkefni á Reykjalundi í námi sínu við Háskóla Íslands.

  1. Helga Dögg Helgadóttir lauk við kandídatsritgerð sína í sálfræði. Ritgerðin heitir: Svefntruflanir, svefnviðhorf og einkenni þunglyndis, kvíða og streitu hjá konum með vefjagigt. Samanburður við heilbrigðar konur og áhrif sex vikna endurhæfingar á Reykjalundi. Leiðbeinandi á Reykjalundi var Gunnhildur Marteinsdóttir sálfræðingur. Verkefnið var unnið sem hluti af stærri rannsókn sem stendur nú yfir á Reykjalundi. Í verkefninu voru teknar saman niðurstöður 13 kvenna með vefjagigt og 8 heilbrigðra jafnaldra. Niðurstöður voru þær að konur með vefjagigt reyndust með marktækt meiri einkenni þunglyndis, kvíða og streitu en heilbrigðar konur. Þær höfðu óhjálplegri viðhorf til svefns, mátu svefnvandamál sín alvarlegri, mældust með minni svefnskilvirkni (SE) og vöknuðu oftar á nóttunni. Einnig mátu þær svefn sinn verri á morgnana og töldu sig vera minna úthvíldar en konur í samanburðarhópnum. Við nánari skoðun kom í ljós að einkenni vefjagigtar, ásamt streitu, þunglyndi og kvíða gáfu góða forspá um alvarleika svefnleysis. Í lok sex vikna endurhæfingar voru sálfræðileg einkenni og áhrif vefjagigtar á daglegt líf marktækt minni en í upphafi. Heildartími svefns var lengri og skilvirkni svefns (SE) var meiri. Ekki reyndist vera munur á upplifun á svefngæðum eða svefnviðhorfum. Niðurstöður voru í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna fram á meiri svefntruflanir og sálfræðileg einkenni hjá konum með vefjagigt samanborið við heilbrigðar konur og góðan árangur af heildrænni nálgun í meðferð við vefjagigt. Slóð á ritgerðina er: http://hdl.handle.net/1946/18539

  2. Guðlaugur Birgisson sjúkraþjálfari varði meistararitgerð sína í lýðheilsuvísindum. Vörnin fór fram á Reykjalundi þriðjudaginn 27. maí síðastliðinn. Ritgerðin heitir: Áhrif atferlismeðferðar við offitu með eða án magahjáveituaðgerðar á þyngd, líkamssamsetningu, líkamlega afkastagetu og hreyfivenjur: 4 ára eftirfylgd. Leiðbeinandi á Reykjalundi var Marta Guðjónsdóttir lífeðlisfræðingur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur fólks í offitumeðferðinni á Reykjalundi 4 árum eftir upphaf meðferðar. Alls tóku 90 þátt af þeim 120 sem var boðin þátttaka (75%). 47 höfðu farið í magahjáveituaðgerð (52%). Niðurstöður í heild sýna marktækan árangur beggja rannsóknarhópa hvað varðar þyngd, líkamsþyngdarstuðul, mittismál, fituhlutfall og fitumassa (p<0,05). Aðgerðarhópur náði marktækt betri árangri en þeir sem ekki fóru í magahjáveituaðgerð á öllum fyrrgreindum þáttum. Aðgerðarhópur jók einnig þrektölu (W/kg) sína marktækt (p<0,05) meðan sá hópur sem ekki fór í aðgerð stóð í stað. Hjá báðum rannsóknarhópum jókst reglubundin hreyfing. Ályktun: Þverfagleg atferlismeðferð við offitu á Reykjalundi leiðir til marktæks þyngdartaps, minna mittismáls, hagstæðari líkamssamsetningar og aukinnar reglubundinnar hreyfingar bæði hjá þeim sem fara í magahjáveituaðgerð og þeim sem ekki fara í þá aðgerð. Aðgerðarhópurinn nær marktækt betri árangri í flestum þáttum rannsóknarinnar. Mikilvægt er að huga að hvort og þá hvernig hægt er að bæta árangur þeirra sem ekki fara í magahjáveituaðgerð. Slóð á ritgerðina er: http://hdl.handle.net/1946/18641

Til baka