19.04.2024

Föstudagsmolar forstjóra 19 apríl

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi

Falleg gjöf til starfsfólks taugateymis Reykjalundar.
Öðru hverju berast okkur hér á Reykjalundi gjafir frá velunnurum starfseminnar, oft frá fólki sem vill þakka fyrir ánægjulega dvöl sína, aðstandendum sjúklinga eða öðrum sem vilja styðja við bakið á starfseminni. Við erum mjög þakklát slíkum hlýhug og auðmjúk þegar okkur eru færðar gjafir, hvort sem þær koma frá Hollvinasamtökum okkar, félagasamtökum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Gjafir sem þessar eru ómetanlegar í starfsemi okkar hvort sem þær eru stórar eða litlar.
Í vikunni fengum við afhenta fallega gjöf frá Helga Skj. Friðjónssyni sem notið hefur þjónustu Reykjalundar undanfarið. Helgi Skj. Friðjónsson er listmálari og færði hann okkur að gjöf landslagsmyndina Dyrfjöll, sem var hluti af tíundu einkasýningu hans; Fjallamjólk, sem var haldin í sal bókasafns Mosfellsbæjar árið 2021. Á sýningunni sýndi Helgi myndir af mjólkurhvítum fjöllum sem unnar eru út frá blönduðum miðlum og yfirfærðar á stafrænt form.
Helgi segir dvölina hér á Reykjalundi ómetanlega og vildi sýna þakklæti sitt með því að færa okkur landslagsmyndina en hana er búið að hengja upp á góðum stað.
Venjulega fjallar Reykjalundur ekki um skjólstæðinga sína eða sjúklinga, né heldur birtir myndir af þeim, en umfjöllun um gjöfina er með góðfúslegu leyfi Helga. Á myndinni með molunum í dag er Helgi með gjöfina ásamt starfsfólki úr taugateymi við formlega afhendingu.
Við á Reykjalundi þökkum Helga kærlega fyrir einstakan hlýhug í okkar garð. 


Ársfundur Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Í gær fór fram ársfundur Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) en við á Reykjalundi höfum verið aðili að samtökunum síðustu ár. Samstökin voru stofnuð árið 2002 og aðild að samtökunum geta átt þau fyrirtæki sem starfa við velferðarþjónustu og eru sjálfseignarstofnanir, í eigu félagasamtaka, einkaaðila og opinberra aðila. Aðildafélög er nú tæplega 50. Mörg hver eru hjúkrunarheimili en þar eru líka ýmsir aðrir, meðal annars endurhæfingarstofnanir eins og við hér á Reykjalundi, Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði, Kjarkur og SÁÁ svo einhverjir séu nefndir. Samtökin eru til dæmis einn stærsti viðsemjandi hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og Eflingar á kjaramarkaði.

Tilgangur samtakanna er (1) að efla samstarf aðildarfélaga er að standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að bættum starfsskilyrðum, (2) stuðla að árangursríku samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, sveitarfélög, félagasamtök og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta, (3) að koma á framfæri við stjórnvöld og almenning afstöðu samtakanna til mála er varða hagsmuni aðildarfélaga og fylgja þeim fram og (4) að gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi m.a. í því skyni að stuðla að framförum og hagræðingu í starfsemi og rekstri aðildarfélaga.
Í harðnandi heimi um auknar kröfur í heilbrigðisþjónustu, nákvæmari samningagerðar um þjónustu og kjaramál og baráttu um fjármagn, er ómetanleg fyrir aðila eins og okkur að vera í hagsmunasamtökum sem þessum.

Yfirskrift ársfundarins að þessu sinni var: Fjölbreyttur rekstur = fjölbreyttur ávinningur, hvernig er best að reka heilbrigðisþjónustu? Eftir ávarp heilbrigðisráðherra fluttu Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir forstjóri SÁÁ og Sigurjón N. Kjærnested framkvæmdastjóri SFV, áhugavert innlegg um mikilvægi aðila eins og okkar í heilbrigðisþjónustunni. Meðal annars var bent á að samanburðargögn á samræmdum, opinberum gæðavísum hjúkrunarheimila hér á landi sýna að hjúkrunarheimili sem rekin eru sem hluti af heilbrigðisstofnunum ríkisins eru fjórum sinnum líklegri til að vera með ófullnægjandi gæði heldur en hjúkrunarheimili sem starfa samkvæmt samningi við ríkið (aðildarfélög SFV). Engin slíkur samanburður er til í endurhæfingu en vonir standa til að með innleiðingu á alþjóða gæðakerfinu CARF getum við hér á Reykjalundi farið að bera gæði og þjónustu okkar saman við aðrar alþjóðlegar endurhæfingarstofnanir í fremstu röð á heimsvísu.
Að loknum erindunum voru svo áhugaverðar pallborðsumræður þar sem þátt tóku Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu og formaður stjórnar SFV, Sigurður Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Stefán Einar Stefánsson, fjölmiðlamaður.

Ég minni svo á aðalfund starfsmannafélagsins okkar í hádeginu á miðvikudaginn, 24. apríl.
Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka