30.09.2022

Föstudagsmolar 30. september 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar dagsins, þar sem gestahöfundur dagsins, Helgi Kristjónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, rifjar upp áhugaverð brot úr sögunni okkar.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur
Pétur


Föstudagsmolar 30. september 2022

Þegar ég hóf störf á Reykjalundi fyrir rúmlega 20 árum var mér tjáð af þáverandi forstjóra, Birni Ástmundssyni, að hverjum starfsmanni Reykjalundar væri nauðsynlegt að þekkja til uppruna Reykjalundar, besta leiðin til þess væri að lesa bókina „SÍBS bókin 50 ár, 1938 – 1988“ sem gefin var út árið 1988 í tilefni 50 ára afmælis SÍBS. Minnisstæðasti kaflinn í bókinni er mjög skemmtilegt viðtal sem Rannveig Löve tók við Snjáfríði Jónsdóttur, fyrstu matráðskonu á Reykjalundi. Viðtalið er óvenjulega hreinskilið og sagt frá hlutunum án alls orðaskrúðs. Svona hefst viðtalið: 
 
“Ég kom að Reykjalundi 14. maí 1945, þá hafði heimilið starfað í þrjá og hálfan mánuð.“
-Hver voru tildrögin að því að þú réðst til þessa starfs?
„Tildrögin. Það man ég ekki. Það var alltaf verið að fala mig eitthvað, ég þurfti aldrei að sækja um starf, og svo var ég föluð að Reykjalundi.“
-Var það auðsótt mál?
„Nei, raunar ekki. Ég var í mjög góðri stöðu og ætlaði mér ekki að fara þarna uppeftir.“
-En samt fórstu.
„Já. Það er svolítil saga. Það gerir ekkert til þó ég segi hana. Ég fór að heimsækja aldraða móður mína inn á Laugaveg. Hún spyr mig hvort ég ætli ekki að fara að Reykjalundi, fyrst fólkið langar svona að fá þig, segir hún. En ég sagði nei, ég ætla ekki að Reykjalundi. Þá segir hún: Geturðu verið þekkt fyrir að fara ekki, þar sem við höfum misst þrjú börnin okkar úr berklum. Mér varð orðfall. En þessi orð móður minnar réðu því að ég fór að Reykjalundi.“
-Bjóstu við að dvölin þar yrði jafn löng og raun varð á?
„Ég hugsaði ekkert um það, ég bara fór og þetta urðu 20 ár.“
-Hvernig var aðkoman?
„Ég verð nú að segja það, að þegar ég kom þarna uppeftir og leit á eldhúsið leist mér ekkert á blikuna. Það var ekkert nema ein stór rafmagnseldavél og heitt og kalt vatn í krönunum. Eldhúsið var í bragga. Þetta voru allt tómir braggar, ég veit ekki hvað margir. Svo var hár múrveggur í kringum alla braggaþyrpinguna. Eldhúsið hafði verið málað og snyrt eftir föngum, en það voru engin áhöld til. Þetta var rétt í stríðslok og það fékkst ekki neitt til neins, engar vörur til í landinu.“
 

Síðar í viðtalinu spyr Rannveig:
 
-Undir þú þér ekki vel á Reykjalundi?
„Ef ég á að segja alveg eins og er þá leiddist mér þarna uppfrá“
-Hvernig gastu þá verið þar í 20 ár?
„Ég veit það ekki, það var bara svona. Ég ætlaði svo sem að fara oftar en einu sinni, en það var ekki hægt, einhvern veginn var það ekki hægt.“
-Var haldið í þig?
„Ég fór að minnsta kosti ekki fyrr en eftir 20 ár.“
-Leiddist þér umhverfið?
„Umhverfið var svo sem ekkert glæsilegt á þessum örfoka mel. Ýmist óð maður drulluna upp í ökkla eða var blindaður af moldroki. En það var snemma byrjað að tína grjót úr melnum og undirbúa sáningu til þess að binda jarðveginn og koma upp gróðri. Það var alltaf verið að snyrta, rífa bragga og brjóta niður múrveggi sem voru þarna allt í kring eftir herinn.“

 
Svo mörg voru þau orð. Góðar stundir.

Helgi Kristjónsson,
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

Til baka