02.06.2022

Kvenfélag Mosfellsbæjar gefur loftdýnu á Hlein

Fulltrúar Kvenfélags Mosfellsbæjar komu færandi hendi á Hlein á dögunum þegar þær gáfu sambýlinu loftdýnu en slíkar dýnur eru sérhæfðar og nýtast mjög vel þegar varna á þrýstingssárum hjá þeim sem þurfa að liggja mikið fyrir. Gjöfin er því mjög mikilvæg fyrir starfsemina og kemur sér afar vel fyrir íbúa.
Hlein er sambýli fyrir einstaklinga sem hafa fatlast mikið af völdum sjúkdóma eða slysa. Markmið starfseminnar er fyrst og fremst að hjálpa þeim að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er. Hlein er staðsett á lóð Reykjalundar og hefur Reykjalundur haft umsjón með starfseminni alveg frá árinu 1993 þegar fyrstu íbúarnir fluttu inn.
Hlein hefur notið mikillar velvildar, ekki síst frá Lions-hreyfingunni, en söfnunarfé úr Landsöfnuninni „Rauða fjöðrin“ árið 1989 var nýtt í byggingu húsnæðisins.
Starfsfólk og íbúar á Hlein senda Kvenfélagi Mosfellsbæjar kærar þakkarkveðjur fyrir hlýhuginn!

Til baka