23.12.2020

Föstudagsmolar forstjóra - Jólakveðja 22. desember 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma síðustu föstudagsmolar forstjóra þetta árið og til tilbreytingar koma þeir á þriðjudegi.

Fyrst af öllu vil ég fá að óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Ég vona að þið eigið öll ánægjulegar stundir um hátíðarnar hvort sem þið dveljið í faðmi fjölskyldu og vina í ykkar jólakúlu, standið vaktina eða gerið eitthvað annað.

Jafnframt þakka ég ykkur kærlega fyrir árangursríkt og ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða. Þetta 75 ára afmælisár Reykjalundar var sannarlega magnað og merkilegt – alveg hreint fordæmalaust í sögu Reykjalundar sem og í heimsögunni  allri.

Þrátt fyrir faraldurinn og þær áskoranir sem honum hafa fylgt, er ég þakklátur fyrir það tækifæri að fá að koma til starfa á Reykjalundi. Það mér heiður að fá að takast á við öll þau spennandi verkefni sem endurhæfingarstarfsemin inniheldur með því flotta starfsfólki hér er að finna. Þó þessi ákveðni faraldur hafi sett margt úr skorðum, getum við verið stolt af því góða starfi sem Reykjalundur er að skila af sér til samfélagsins. Ég lít á það sem forréttindi að fá að kynnast og vinna með öllu því góða fólki sem hjá okkur starfar og gerir starfsemina jafn glæsilega og raun ber vitni.

Ég hlakka mikið til að takast á við árið 2021 með ykkur – þar sem verkefni okkar verður, að gera mjög góðan Reykjalund enn betri!

Gleðilega hátíð og njótið vel!
Pétur Magnússon

Til baka